151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Hér hefur átt sér stað að mestu leyti, ekki öllu, ágætisumræða sem hefur kannski að minnstu leyti snúist um frumvarpið sem er til umræðu, en það er allt í lagi. Ég ætla að bæta um betur og ræða nánast ekkert um frumvarpið sem er til umræðu heldur aðeins að nýta mér þá stöðu að fjalla um stjórnarskrána, hafandi haft á henni áhuga frá því að ég var ungur háskólanemi í sagnfræði og hafandi þennan ræðustól til að fara yfir þessi mál eins og þau horfa við mér.

Hér hefur mikið verið talað um hina gömlu og úreltu stjórnarskrá og vitnað í háfleyg ummæli og ljóð. Stjórnarskráin 1874 byggir að einhverju leyti á stöðulögunum 1871. Árin eftir að fyrsta íslenska stjórnarskráin kom 1874 einkennast af þvílíku argaþrasi í íslenskri pólitík að sennilega eru engin dæmi um annað slíkt í sögunni. Þingmenn voru fastir í því hvernig ætti að vinna áfram með stjórnarskrána, hvað ætti að gera sem næstu skref í sjálfstæðisbaráttu, hvernig ætti að taka þetta mál áfram. Svikabrigslin hægri og vinstri — kannast einhver við þessar lýsingar? — þar sem háfleyg ummæli voru látin falla og mælskuskörungar létu gamminn geisa.

Mig langar að vitna í hv. þm. Benedikt Sveinsson, með leyfi forseta, sem fjallar um tillögur sínar um hvað eigi að gera í átt til aukins sjálfstæðis.

„Þessi viðleitni er andardráttur hins íslenzka þjóðernis, viðleitni íslenzku þjóðarinnar til að fá að anda frjálst, viðleitni hennar að gjöra það mögulegt, að íslenzkir kraptar andlegir, og líkamlegir geti þroskazt frjálslega. Þessi viðleitni, þessar tilraunir eru frá vorri hálfu svo nauðsynlegar, að þær eru fortakslaust tilveruskilyrði fyrir hina íslenzku þjóð.“

Þetta er fallegt, en þetta festi Alþingi og Ísland í viðjum deilna, fram fluttar í fögrum orðum, vissulega, en deilna, skrúfstykki í mörg ár, tíu, fimmtán ár. Upp úr aldamótunum er það valtýskan sem breytir málum, hefur þetta áfram. Heimastjórnin 1904, hvað fáum við þá? Heimastjórn, íslenskan ráðherra. Þegar Íslendingar fengu nóg af skrúfstykkinu og sögðu: Heyrið, krakkar, höldum áfram, gerum eitthvað. Fullveldið 1918 kom í kjölfarið. Ef ég stikla á stóru, eigum við fara næst til 1944, forseti? Hér hefur verið talað um lýðveldisstjórnarskrána, þjóðaratkvæðagreiðsluna, vitnað jafnvel til þess mikla einhugar sem náðist um hana. Já, það var einhugur í atkvæðagreiðslunni þá, enda var áróðurinn fyrir stjórnarskránni slíkur að í dag myndu allar alþjóðlegar stofnanir gefa þessu falleinkunn. Með leyfi forseta, sagði í Morgunblaðinu:

„Enginn Íslendingur geti setið heima við atkvæðagreiðsluna […] Hver einasti kjósandi á landinu mun á kjördegi leysa sína þegnskaparskyldu og greiða atkvæði MEÐ lýðveldisstjórnarskránni.“

Í Vesturlandi sagði:

„Við megum ekki saurga minningu forfeðra vorra og sæmd sjálfra vorra með því að gleyma skyldu vorri á þessari örlagastundu.“

Einn maður synti gegn þessum straumi, fyrrum kollegi okkar hér, þáverandi hv. þm. Hannibal Valdimarsson. Hann hvatti kjósendur til að samþykkja sambandsslitin en fella lýðveldisstofnun og stjórnarskrá. Hann taldi að hún þarfnaðist lagfæringar við og betri yfirlegu. Hvernig var hv. þingmanni tekið? Ég ætla, forseti, með leyfi hans, að vitna í Ísfirðing, ég ætla ekki einu sinni að nefna hann, orðin eru slík, en þetta birtist á prenti þegar Hannibal Valdimarsson talaði fyrir því að lýðveldisstjórnarskráin yrði felld:

„Drengskaparrýru og vangefnu smámenni tókst á þessum merkilegustu tímamótum í lífi þjóðarinnar að véla allmargar einfaldar og skammsýnar sálir samborgara sinna til að snúast gegn stofnun lýðveldisins.“

Hann var kallaður blint smámenni, nátthúfa, manntetur, óþokki, grautarhaus og andlegur leppalúði. Með leyfi forseta:

„Nei, vissulega mundi móðir vor, Fjallkonan, gráta yfir slíkum amlóða og svikara.“

Þetta var sagt opinberlega um hv. þáverandi þingmann, Hannibal Valdimarsson.

Aftur var hugsjónin svo rík og svo tær og svo fögur og sett fram á, jú, ágætu máli þótt fúkyrði séu, en ekki tókst að líta upp fyrir askbrúnina. Sambandsslitin voru samþykkt með 99,5% greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni og stjórnarskráin með 98,3%.

Síðan hafa orðið breytingar á stjórnarskránni, það hefur verið rakið í máli annarra hv. þingmanna og þarf ekki að fara yfir það, ýmsar breytingar. Mannréttindakaflinn 1995 eru stærstu breytingarnar. Ýmislegt annað mætti breytast og hefði mátt breytast öðruvísi að mínu viti. Ég hef ákveðnar skoðanir á stjórnarskrá sem ég er viss um að allir þingmenn deila ekki með mér en ég hlusta á hvernig fólk talar og geng í það verk að vinna það.

Svo komum við að stjórnlagaráði, þjóðaratkvæðagreiðslunni hinni um stjórnarskrána, sem við vitnum til, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt var: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Við þurfum ekki að fara yfir það að öðru leyti, forseti, en því að nefna að enginn sem tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 átti að velkjast í vafa um að ekki var verið að kjósa um heildarpakka. Ekki var verið að kjósa um heildarpakka. Það var alltaf vilji þeirra sem að þjóðaratkvæðagreiðslunni komu að hún væri aðeins liður í mun lengra ferli, væri til grundvallar. Fimm aðrar spurningar voru nefnilega lagðar fyrir þjóðina um hvort fólk vildi þetta og hitt inn í stjórnarskrána, sem hefði verið algjörlega fráleitt að spyrja um ef ætlunin hefði verið að kjósa um einhvern heildarpakka. Hvað samþykkti nefndin sem undirbjó þjóðaratkvæðagreiðsluna að yrði ritað á kjörseðilinn? Jú, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“

Þetta var sérstaklega tekið fram í tengslum við þessa kosningu. Það var alltaf ætlunin að málið færi í þá meðferð sem það svo fór í og ekki náðist að klára. Þess vegna gef ég ekkert fyrir heilög brigslyrði um að eitthvað hafi verið svikið í þjóðaratkvæðagreiðslu, sérstaklega ekki frá fólki sem virðir ekki allar spurningar þjóðaratkvæðagreiðslunnar rétt. Það liggur nú fyrir þessu þingi, sem og það gerði á nokkrum öðrum, þingmál nokkurra þingmanna um að fara gegn vilja þjóðaratkvæðagreiðslunnar og að aðskilja ríki og kirkju, sem þjóðin samþykkti í umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 að ætti ekki að gera, það ætti einmitt að vera þjóðkirkja. En er ekki bara eðlilegt að þingmenn leggi fram það frumvarp? Jú, auðvitað er það eðlilegt að þingmenn vilji hreyfa við því, þeir sem vilja ekki að ríki og kirkja séu eitt, að það sé þjóðkirkja, alveg eins og það er eðlilegt að aðrir þingmenn leggi fram frumvörp um aðra þætti stjórnarskrárinnar sem hæstv. forsætisráðherra hefur gert nú.

Hingað erum við komin með stórt og mikið frumvarp, eðlilega. Það fjallar um stjórnarskrána okkar. Það eru töluverðar breytingar í því fólgnar. Fólk hefur á þessu ýmsar skoðanir, vill hafa þetta ákvæði svona, hitt ákvæði hinsegin. Ég hef heyrt flest tala um nauðsyn ýmissa þeirra atriða sem hér eru lögð til nái inn í stjórnarskrá, einhvers konar ákvæði um auðlindir, umhverfismál, íslenska tungu o.s.frv., hvernig forsetakaflinn verður. Mér hefur þótt okkur takast ágætlega að ræða um það núna, þó að við höfum kannski minnst talað um það í dag. Það er allt í góðu. En við erum hér við upphaf þeirrar þinglegu meðferðar sem lýst var árið 2012 að yrði farið í og ég las hér upp áðan með leyfi forseta.

Þetta mál fer síðan til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar munum við vinna að þessu, hlusta á þau sjónarmið sem hér hafa verið lögð fram og ganga í þetta eins og verkefni sem okkur hefur verið falið, verandi kosin til þeirra starfa sem við gegnum hér. Ég mun ekki nálgast þetta verkefni eins og háheilaga skyldu sem þarf að búa í falleg og háleit orð. Ég mun þvert á móti nálgast þetta eins og hvert annað verkefni sem við þurfum að einhenda okkur í, setja undir okkur hausinn og vinna saman. Annars verða verður þessi umræða hér og nú rifjuð upp af öðrum sagnfræðilega þenkjandi þingmanni eftir hundrað ár, eins og ég hef nú rifjað upp umræðu sem Benedikt Sveinsson tók þátt í undir lok þarsíðustu aldar.