151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi góða ræðu. Ég hefði nú gjarnan viljað — ræðutíminn er stuttur, ég verð að hlusta á seinni ræðuna líka, sem verður ekkert leiðinleg, veit ég — að þingmaðurinn færi nánar í einstök ákvæði eins og varðandi þjóðareign og náttúruverndarákvæði sérstaklega. Ég held að það sé mikilvægt að við reynum að komum okkur saman um skilgreiningar á því hvað sé ríkisins eða þjóðarinnar, ef það er hægt að finna eitthvað sem þjóðin á, og þá líka hvað sé einkaréttareðlis.

Það sem kveikti í mér var að hv. þingmaður fór hér ágætlega yfir sögu stjórnarskrárbreytinga. Það er mjög mikilvægt, held ég, farið sé yfir ferlið frá A til Ö, það rifjað upp, því að eins og hv. þingmaður gaf í skyn, og komst nú hálfpartinn að orði, þá er svo mikil þvæla í gangi um ferlið allt. Það er hreint með ólíkindum að horfa upp á fólk sem maður hefði haldið að væri með einhverja sómakennd og ábyrgð reyna að halda því t.d. að ungu fólki að þjóðin hafi ákveðið eitthvað í einhverjum kosningum og verið sé að hafa það af unga fólkinu. Hv. þingmaður benti á það, að mig minnir í grein fyrir nokkru síðan, að það ágæta fræga fólk sem í dag er að tjá sig um þetta var frekar ungt þegar þessi kosning átti sér stað.

Nú spyr ég bara, fyrst þingmaðurinn hafði af mér að spyrja hann almennilega út í þjóðareignina: Hvað er það sem vakir fyrir þeim sem halda svona löguðu á lofti og hvers vegna í ósköpunum fóru menn í þá vegferð, sem farið var í 2009, að reyna að breyta grunnlögum íslenskrar þjóðar?