151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber kannski ekki ábyrgð á orðalaginu í þessu ákvæði en ég held að þetta sé misskilningur hjá hv. þingmanni. Ég held einmitt að orðalagið sé mótað með þeim hætti að það sé tiltölulega almennt um auðlindir og auðlindanýtingu. Ég kemst samt ekki hjá því að velta því fyrir mér, vegna þess að hv. þingmönnum Viðreisnar verður mjög tíðrætt um sjávarútvegsmál í þessu og fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og auðlindanýtingar og greiðslur fyrir auðlindanýtingu á sviði sjávarútvegs, hvort það sé eitthvað, að mati hv. þingmanns, í núgildandi stjórnarskrá sem kemur í veg fyrir að hugmyndir Viðreisnar um breytingar á gjaldtöku af sjávarútveginum nái fram að ganga.