151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:29]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hafa framkallað hroll hjá hv. þingmanni en svo átta ég mig á því að það þarf ekki annað en að vísa til nútímans til að framkalla þau viðbrögð hjá honum. Tíðarandi gæti t.d. verið endurskoðun mannréttindakaflans á sínum tíma. Hann var orðaður upp á nýtt þegar hann var endurskoðaður á sínum tíma. Það voru grundvallarlagabreytingar en ekki þannig að verið væri að elta eitthvað sem var í síðdegisútvarpinu þann daginn. Hv. þingmaður þekkir það líka mætavel sem löglærður maður hvað þarf að koma til til að breyta stjórnarskránni. Það má kannski deila um það hvort nota eigi orðið tíðarandi en stjórnarskráin er ekki greypt í stein. Þótt hún verðskuldi þá virðingu og fá að vera stöðug þolir hún líka samtalið og hún þolir þróunina. Hún þolir jafnvel tíðarandann.