151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég hef alltaf litið svo á að tíðarandinn væri það sem við erum að takast á við á hverjum degi í löggjöf og að stjórnarskrána eigi að mestu að láta í friði þó að vissulega geti komið upp þær aðstæður, t.d. varðandi réttindi borgaranna, að bæta þurfi við hana. Menn hafa reyndar talað um að öll þessi réttindi séu lifandi og þurfi ekkert að breyta stjórnarskránni heldur bara túlka hana í tíðarandanum. Margir hafa haft þær hugmyndir. Við erum að tala um að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá en það er dæmigert ákvæði um atriði sem við erum að takast á um daglega, sem er hættulegt. Hvernig eigum við að nýta auðlindina? Hvaða gjald eigum við að taka fyrir hana? Þetta er pólitík hversdagsins. Það að fara að festa það inn í stjórnarskrá að við verðum til að mynda alltaf að taka fullt gjald — sem enginn veit hvað þýðir, en allt í lagi, þetta endar auðvitað allt í einhverjum málaferlum — er í mínum huga tilgangslaust ákvæði í stjórnarskrá. Við stjórnum auðlindinni. En það er pólitík hvernig við gerum það, um það kýs fólk. Hvernig ætlum við að takast á við nýtingu auðlindarinnar? Hvernig á að gera það? Hverjir eiga að fá heimild til þess? Hvaða skilyrði þurfa menn að uppfylla? Ég lít svo á að slíkt ákvæði eigi ekki heima í stjórnarskrá. Það er óþarft. Við stjórnum þessum veiðum öllum á grundvelli fullveldisréttar, og líka annarri auðlindanýtingu. Við erum að takast á um það.