151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Er forsetakaflinn skýr? Ég tel hann vera skýrari en í núverandi stjórnarskrá, tvímælalaust. Ég ætla að leyfa umsagnarferlinu að klárast til að ná að pota betur í nákvæmlega hvernig einhverjum dettur í hug að snúa út úr því sem lagt er til í þessu frumvarpi. En þetta er tvímælalaust betrumbót frá núverandi þekktum útúrsnúningum sem tengjast því hvernig valdið er framselt eða ekki þegar ráðherra á að framkvæma framkvæmdarvaldið. Samt stendur að forseti eigi að gera það. Þegar hver og ein grein er túlkuð bókstaflega er eins og forseti geti einhvern veginn tekið sér það vald á ýmsan hátt, t.d. er spurning hvort forseti þurfi að samþykkja þingrof eða hvort hann verði að gera það og ýmislegt þannig. Eins og er er það óskýrt. Það sem bætt er við hér gerir það skýrara. Ég hlakka til að sjá hvernig umsagnarferlið fer hvað það varðar.

Síðan er það varðandi auðlindaákvæðið fyrst og fremst. Já, það eru ýmis önnur álitamál sem hefur verið komið til móts við í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Feneyjanefndarinnar og víðar þar sem fólk hefur vissulega tekið undir að það eru álitamál sem hafa farið í gegnum ákveðið lagfæringarferli án þess að fólk telji að verið sé að bregða frá frumvarpi stjórnlagaráðs í grundvallaratriðum. En við endum alltaf í rifrildinu um auðlindaákvæðið. Þess vegna segi ég að það sé fyrst og fremst vandamálið. Það er bara mín skoðun. Það er ekkert flóknara en það. Ég skil alveg að það séu álitaefni í öðrum greinum en í því rifrildi er umræðan um auðlindaákvæðið háværust, um fullt gjald eða eðlilegt gjald, hvernig við skiljum það og hvernig við greinum á milli þess hvenær eigi að vera fullt gjald og hvenær eigi að vera eðlilegt gjald.