151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að ég heyrði á ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar að hann er afskaplega hrifinn af auðlindaákvæðinu í tillögum stjórnlagaráðs, sem maður hefur haft á tilfinningunni að allt þetta mál snúist í raun og veru um og hafi alltaf snúist um, þá vil ég spyrja: Eru sambærileg auðlindaákvæði í stjórnarskrám annarra vestrænna ríkja eða yfir höfuð einhver auðlindaákvæði? Ef svo er, hvaða ríki eru það þá helst? Er þetta ekki bara einhver íslensk uppfinning að hafa auðlindaákvæði með þeim hætti sem bindur okkur öll, stjórnmálin til framtíðar, hvað það varðar hvernig við nýtum auðlindirnar og hvaða gjald við tökum fyrir? Þetta kann að vera einhvers staðar til, ég man það ekki. Ég veit þó að það var ákvæði um þjóðareign í gömlu sovésku stjórnarskránni. Erum við að fara þangað eða hvert erum við að fara? Af hverju erum við með í stjórnarskrárákvæði um það hvernig við ætlum að nýta auðlindir til framtíðar? Nú er ekki auðvelt að breyta stjórnarskrá. Telur þingmaðurinn skynsamlegt yfir höfuð að hafa svona ákvæði eins og var í tillögu stjórnlagaráðs? Það er nú heldur meinlausara ákvæðið hjá forsætisráðherra, en af hverju þurfum við að hafa þetta svona? Og af hverju eru eiginlega engir aðrir með svona ákvæði í stjórnarskrá? Kann þingmaður einhverja skýringu á því?