151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður sagði sjálfur í ræðu sinni þá mundi hann ekki hvort svona ákvæði væri einhvers staðar annars staðar. Þegar ég fór yfir málið hvað það varðar, það var 2016 síðast, voru allar greinarnar til í einhverjum stjórnarskrám. Ég man ekki nákvæmlega hvaða ákvæði var hvar og er ekki með það beint fyrir framan mig. Ég reyndi að fletta því upp á þessum tveimur mínútum sem ég hafði og fann alla vega eina grein, National Resources and the Constitution. Some Recent Developments and their Implications for the Future Regulation of the Resource Industries.“ — Ef ég þýði það yfir á íslensku þá er það: Náttúruauðlindir og stjórnarskrár. Nýleg þróun og áhrif hennar á framtíðarlagasetningu og auðlindageirann.

Fræðin eru tvímælalaust til og fræðin eru nú þegar í lögum. Tökum sem dæmi akademískt frelsi sem er í lögum og er í tillögum stjórnlagaráðs að setja í stjórnarskrá. Það er ekki það mikill munur þarna á nema að stjórnarskráin er sá rammi sem við förum ekki fram úr. Við verðum að grundvalla lagasetningu okkar á stjórnarskránni. Það er ekkert að því að setja stjórnmálunum nú og til framtíðar þann ramma utan um auðlindir landsins til að tryggja sjálfbærni. Það hefur komið í ljós á undanförnum árum og áratugum að við höfum gengið á mjög ósjálfbæran hátt á auðlindir, náttúruauðlindir, þannig að það er tvímælalaust nauðsynlegt að setja það í stjórnarskrá til að ekki sé verið að flakka of auðveldlega með það í lögum hvernig gengið er á náttúruauðlindir á ósjálfbæran hátt.