151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru tvö merkileg andsvör. Til að byrja með var ýjað að því að auðlindaákvæði væri til í einhverjum kommúnistaríkjum o.s.frv. Svo áttum við öll að vera sammála um að vilja sjálfbæra nýtingu á auðlindum, og ef við erum öll sammála því þá er það eitthvað sem á augljóslega heima í stjórnarskrá. Grundvöllurinn að því hvað á heima í stjórnarskrá er eitthvað sem við erum almennt séð sammála um. Svo fór andsvarið út í það að tryggja verði sjálfbæran sjávarútveg. Bíddu, er hv. þingmaður ekki úr flokki sem tileinkar sér markaðskerfi? Hvernig er það öðruvísi en að aðlagast, hvað varðar sjálfbærni, því hvernig aðstæður eru? (Gripið fram í.) Ég er að segja það, ef það er markaður þá aðlagast hann þeim aðstæðum sem tryggja sjálfbærni þeirra sem stunda markaðinn. Ég hef engan áhuga á því að passa upp á sjálfbærni sjávarútvegsins á ákveðinn hátt sem er utan markaðskerfisins eins og það er núna. Ef við ætlum að fara út í kommúnisma þá er það núverandi kvótakerfi. (BN: Ertu þá að tala um byggðakvóta?) Ég er að tala um ýmiss konar útfærslur á því, hvernig sum fyrirtæki eru með hærri prósentu í kvótaeign en er leyfilegt samkvæmt lögum og það er ekki gert neitt í því heldur eru einhverjar tilraunir gerðar til að setja í lög að ekki þurfi að glíma við það fyrr en eftir sex ár eða eitthvað svoleiðis, hvernig sem það var. Við eigum í vandræðum með að stjórna þessari auðlind eins og er og ef við erum í alvörunni sammála um að við eigum að hafa sjálfbæra nýtingu á auðlindum þá á það heima í stjórnarskrá hvernig við höfum rammann utan um það.