151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það að í fyrstu ræðu minni fór ég yfir aðferðafræðina almennt, aðdragandann og vinnulagið. Hvað varðar verkefnin sem við fórum síðan yfir vil ég lýsa því yfir að ég sakna þess mjög að sjá hér framsalsákvæði sem var samkomulag um að taka fyrir á þessu kjörtímabili. Gefist var upp við það. Og ég undirstrika það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég sakna þess að sjá hér jafnt vægi atkvæða, ekki síst vegna þess að eftir að við fórum að kanna raunverulegan vilja almennings varðandi það ákvæði sáum við eindregna ósk þjóðarinnar, almennings, í þá veru að jafna vægi atkvæða. Og því meira sem var unnið í því, því ríkari varð stuðningurinn við það að jafna vægi atkvæða.

Ég vil líka draga fram að ég hef ekki breytt afstöðu minni varðandi íslenskuákvæðið, umhverfisákvæðið og forsetakaflann og ég styð í megindráttum aðferðafræði og nálgun hæstv. forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna. Ég hef hins vegar tekið eftir mjög áhugaverðum ábendingum frá hv. þm. Birgi Ármannssyni um forsetakaflann. Mér finnst sjálfsagt að farið verði gaumgæfilega yfir ábendingar hans. Upphaflega ætlaði formaður Vinstri grænna að vera með mörg frumvörp, það var alltaf uppleggið, og ég lýsti því yfir á sínum tíma að ég væri tilbúin til að vera á þeim frumvörpum. Engu að síður hef ég ekki breytt afstöðu minni. Ég tel að hægt sé að ná ákveðinni samstöðu um þessa þætti. Það var hins vegar alveg ljóst þegar auðlindaákvæðið lá fyrir að ekki var hægt að ná nákvæmlega þeirri samstöðu sem ég hefði óskað eftir. Ég hefði getað lagt fram nákvæmlega það auðlindaákvæði sem ég hefði viljað sjá. Til að ná samstöðu er ég hins vegar að reyna að sýna fram á að hægt sé að vinna með það sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram. Þess vegna hef ég lagt fram breytingartillögu sem vinnur út frá því ákvæði sem liggur fyrir. Þótt ekki sé verið að breyta mörgum orðum í tillögu minni þá er þetta lykilatriði. Þetta eru grundvallaratriði til þess einmitt að virkja þjóðareignina en gera hana ekki óvirka og í rauninni merkingarlausa. Þótt orðið þjóðareign sé fagurt, og að fá það inn í stjórnarskrá, hefur það enga þýðingu fyrir þjóðina umfram það sem almenn lög gera nú þegar ráð fyrir.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði réttilega í 1. umr. að nýja ákvæðið kæmi ekki í veg fyrir að tímabinda mætti nýtingarréttinn í almennum lögum. Nei, þetta þarf náttúrlega ekki að tyggja ofan í einn né neinn því að almenna reglan í öllum öðrum lögum um nýtingarrétt á náttúruauðlindum í þjóðareign er sú að gerðir séu tímabundnir samningar. En það er ekki gert og hefur ekki verið gert eftir að Sjálfstæðisflokkurinn og LÍÚ, núna SFS, kúventu í afstöðu sinni eftir að auðlindanefndin, undir forystu Jóhannesar Nordals, skilaði afstöðu sinni árið 2000. Þá kúventu þessir tveir aðilar, LÍÚ og Sjálfstæðisflokkurinn. Svo heyri ég talað hér um tíðaranda. Ég byrjaði á þingi með því að samþykkja breytingar á stjórnarskrá. Síðan höfum við ekkert færst áfram í breytingum á stjórnarskrá. Við eigum að sýna þann metnað, já, við skuldum þjóðinni að vissu leyti breytingar á stjórnarskrá en við þurfum þá að gera þær almennilega, sérstaklega þegar kemur að kröfu hennar um auðlindaákvæðið. Hún er að biðja um að hún verði ekki blekkt til einhvers innihaldslauss ákvæðis. Talandi um tíðarandann, af hverju hefur ekkert breyst í þessi 20 ár? Af því að markvisst hefur verið unnið gegn því í öllum tillögum, hvort sem er varðandi almenn lög eða í hugmyndum að breytingum á stjórnarskrá, að setja fram í almennum lögum tímabundna samninga um aðgang að sjávarauðlindinni. Þannig að þetta er risamál. Það hefur alltaf og ítrekað verið komið í veg fyrir að gerðir verði tímabundnir samningar um sjávarauðlindina.

Þessi almenna grundvallarregla um nýtingarrétt náttúruauðlinda kemur einnig skýrt fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hálendisþjóðgarð. Þar er eðlilega gert ráð fyrir að hvers kyns nýtingarréttur samkvæmt þeim lögum verði tímabundinn. Við sjáum það líka í allri umgengni varðandi orkunýtingu. Þar eru gerðir tímabundnir samningar. Þetta eru allt umdeild mál. Fiskeldi er umdeilt en lagaramminn er alveg skýr. Þar eru gerðir tímabundnir samningar af því þar er um að ræða aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og óvissan á ekki að vera lögð á herðar þjóðarinnar. Hún á ekki að vera þar. Ótímabundinn nýtingarréttur í sjávarútvegi er þess vegna sérregla í íslenskum rétti og ekki bara undantekning í íslenskum rétti heldur líka þegar við skyggnumst víðs vegar um aðra heimshluta. Þess vegna varpa ummæli hæstv. fjármálaráðherra að mínu mati skýru ljósi á ólíkt eðli stjórnarskrár og almennra laga. Eitt af mikilvægustu hlutverkum stjórnarskrár er að takmarka vald. Þannig kveður stjórnarskráin t.d. á um að hvers kyns mismunun í skattheimtu sé óheimil. Ef ekkert slíkt ákvæði væri í stjórnarskrá væri eftir sem áður unnt að tryggja jafna stöðu allra í almennum lögum.

Gildi þessa stjórnarskrárákvæðis felst því í því að hendur löggjafans eru bundnar. Ágreiningur um auðlindaákvæðið snýst um það að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn vilja hafa þjóðareignarákvæði þannig orðað að unnt verði að hafa áframhaldandi mismunun, að við getum viðhaldið mismunun við nýtingu orkuauðlinda. Það er almenn regla að þeir sem hafa aðgang að auðlindum, einkaafnot af auðlindum, geri tímabundna samninga, eins og ég sagði áðan. Orkunýting, miðhálendisþjóðgarður, fiskeldi, allt saman er þetta vissulega umdeilt en það sem sameinar þessar greinar er að um þær eru gerðir tímabundnir samningar. Það er meginreglan og hún á að gilda til að tryggja að þjóðareignin okkar verði virk. Við eigum ekki að fara í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut.

Það er stjórnskipulega hliðin á málinu. Síðan kemur hin hliðin sem snýr að stjórnmálafræðinni. Í kerfi samsteypustjórnar þarf jafnan að gera málamiðlanir. Tveir af núverandi stjórnarflokkum gengu til síðustu kosninga með þá stefnu að tímabundinn nýtingarréttur auðlinda ætti að ná til allrar auðlindanýtingar, Framsókn og Vinstri græn. Þeir flokkar sögðu við kjósendur sína fyrir síðustu kosningar að afnema ætti sérregluna í sjávarútvegi. Sjálfstæðisflokkurinn var eini flokkurinn sem boðaði áframhaldandi sérreglu fyrir sjávarútveginn. Málamiðlun stjórnarflokkanna var síðan sú að hinir tveir flokkarnir, Framsókn og Vinstri græn, féllust á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þannig er þetta oft við stjórnarmyndun. Við skulum ekki draga dul á það. Að einhverju marki verðum við alltaf að sætta okkur við slíkar málamiðlanir en þær geta orðið hættulegar þegar þær snúast um stór prinsipp sem fela í sér mismunun. Ef stjórnarskráin leyfði mismunun í skattamálum myndum við illa una því að einn flokkur í ríkisstjórn réði því að hreyfa ekki við sérhagsmunum í almennum skattalögum. Eins er þetta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar. Þar stendur Sjálfstæðisflokkurinn, með innan við fjórðung atkvæða, í vegi fyrir því að sömu reglur, almennar reglur, gildi um þá auðlind og aðra auðlindanýtingu. Eina leiðin til að koma í veg fyrir sérhagsmunagæslu af þessu tagi er að tryggja í stjórnarskrá að sérhagsmunagæsla í almennri löggjöf sé óheimil, að tímabundnir samningar gildi um nýtingu allra náttúruauðlinda, þar verði enginn undan skilinn.

Virðulegi forseti. Að mínu mati snýst þetta um að takmarka sérhagsmunagæsluvald löggjafans. Þetta er stórt mál. Stjórnarsáttmálinn virðist líka binda hendur VG og Framsóknar þegar kemur að grundvallaratriðum eins og valdtakmörkunum í stjórnarskrá. Með þessu hefur Sjálfstæðisflokknum tekist að nota stjórnarsáttmálann til að binda hendur stjórnar- og samstarfsflokkanna inn á næsta kjörtímabil. Ég get komið að því í næstu ræðu. Það er eins og ýmsir þingmenn hér inni hafi ekki áttað sig á því að skýrustu ljósin sem er verið að tendra með tillögu um þetta auðlindaákvæði, af því að það þarf að vera samþykkt með meiri hluta hér, eru að meiri hluti á nýju þingi þarf að samþykkja þetta, nema engin meining sé með því að ná þessu auðlindaákvæði í gegn. Á endanum er þetta vald vitaskuld í höndum kjósenda og þeir geta valið flokka sem vilja takmarka hið almenna vald löggjafans til mismununar varðandi auðlindanýtingu eða flokka sem hafa samið um að viðhalda stjórnskipulegum möguleika á áframhaldandi mismunun. Ég held að valið verði á endanum mjög skýrt; almenn regla sem kemur í veg fyrir sérhagsmuni og sérreglur eða áframhaldandi viðhald á sérhagsmunum og sérreglum fyrir sérstaka aðila.