151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að segja það skýrt að almenna reglan verði sú að tímabinda eigi aðgang að auðlindum. Það er ekki sagt í þessu. Hæstv. fjármálaráðherra dró fram Vatneyrardóminn, réttilega. En hvað segir Vatneyrardómurinn okkar? Að ekki megi afhenda auðlindir varanlega en óvissan snýst um að við erum algerlega í myrkrinu um til hve langs tíma þetta er. Það er sama hvaða auðlindanýtingu við bendum á, hv. þm. Birgir Ármannsson, þá eru gerðir tímabundnir samningar, þeir eru mismunandi langir eftir því hvaða auðlindir er um að ræða eins og við vitum en það eru gerðir tímabundnir samningar. Það er skýrt. Þrátt fyrir fagra orðið um þjóðareignina verður þetta ákvæði ekki virkt nema tekið sé skýrt á þessu. Það er ekki verið að gera. Mér finnst óvissan lögð á herðar þjóðarinnar, ekki útgerðarinnar. Óvissan er hjá þjóðinni en ekki þeim sem hafa einkaafnot af okkar sameiginlegu auðlind. Þetta ákvæði bætir engu við það sem segir í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna frá árinu 1991. Engu. Það bætir engum réttaráhrifum við. Það setur ekki almenna reglu. Það takmarkar ekki svið löggjafans. Við verðum eftir sem áður með flokka hér inni á þingi sem munu halda áfram að passa upp á að sérreglur verði um eina atvinnugrein umfram aðra. Mér finnst það vont af því að ég veit að hjá mörgum hverjum er það ekki hugsunin. Þess vegna segi ég: Sameinumst um að hafa almennu regluna skýra. Tímabindum samninga um auðlindir í eigu þjóðarinnar, alveg óháð því hvaða auðlindir er um að ræða. Ég bið um að talað sé skýrt. Ekki fara hér í lagatæknilega útúrsnúninga. Ég vil bara að almenna reglan sé skýr: Tímabindum afnotaréttinn af auðlindum þjóðarinnar.