151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta eilífa tal um sérhagsmunagæslu Sjálfstæðisflokksins er orðið mjög þreytt, bara eitt það þreyttasta sem maður heyrir. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn einn og sér sem kom kvótakerfinu á. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn einn og sér sem kom framsali aflaheimilda á, réttinum til að veiða. Það er bara ekki þannig. Menn verða að rifja það upp að þegar kvótakerfið var sett á var farin sú leið að úthluta þeim kvóta sem höfðu veiðireynslu. Af hverju var það gert? Það er vegna þess að þeir sem höfðu sótt sjóinn höfðu myndað réttindi varin af stjórnarskrá. Það er bara það. Vatneyrardómurinn fer alveg yfir þetta. Stjórnmálin á hverjum tíma, þingið á hverjum tíma, geta breytt þessu fyrirkomulagi; geta bara ákveðið það, þess vegna á morgun, að veiðar verði frjálsar aftur. Menn geta ákveðið að innkalla veiðiheimildir. En af því að það er orðið svo erfitt að setja stefnu Viðreisnar í almenn lög þá á að gera það í stjórnarskrá. Er það auðveldara? Nei, það er auðvitað ekki auðveldara. Þetta snýst bara um það, og pólitíkin snýst um það, að við erum búin að byggja upp kerfi sem er sjálfbært og Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki breyta því með því að fara að innkalla veiðiheimildir, sem er sennilega það vitlausasta af öllu, og bjóða hæstbjóðanda. Það er bara mjög fáum sem dettur það í hug og fáir sem reyna það yfir höfuð í heiminum. Þeir fáu sem hafa reynt það — það hefur ekki gengið vel að bjóða bara allt á uppboði. Það er auðvitað markaður með veiðiheimildir í dag. Þeir sem fengu úthlutað kvóta 1983 eða 1984 — þetta hefur allt gengið kaupum og sölum, þetta er allt löngu farið. Menn eru búnir að leggja allt undir. Við erum með sjálfbæran atvinnuveg. Svo koma menn og segja: Nei, heyrðu. Það er réttast að innkalla þetta og bjóða hæstbjóðanda, að það séu hagsmunir íslensku þjóðarinnar.