151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svei mér þá ef þetta endar ekki bara með einhverju koddahjali hér í lokin — og ég segi bara: Sömuleiðis. En við gleymum samt ekki pólitíkinni og því sem okkur greinir á um og það er risamál. Það er verið að spyrja: Hvaða aðrar þjóðir? Engar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við, hvort sem það er í Evrópu eða á öðrum stöðum, eru með ótímabundin afnot af auðlindum eins og hér er. Engar. Það þarf að útskýra fyrir mér af hverju Íslendingar, einir vestrænna þjóða, eru með ótímabundin afnot af fiskveiðiauðlind. (Gripið fram í.) — Óvissan er það mikil að við skulum bara hafa það skýrt í stjórnarskrá og hafa um það almenna reglu að gerðir verði tímabundnir samningar við þá sem vilja hafa einkarétt á auðlindum okkar, hvar sem þær eru. Það er síðan löggjafans að ákveða hversu langir þeir eiga að vera, það á ekki að vera í stjórnarskránni. Þetta er mjög einfalt. Enn og aftur frábið ég mér að við séum að tala um innköllun í þessum tillögum okkar. Við erum einfaldlega að tala um að tímabinda samningana alveg eins og tillagan var 2013–2016 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það var síðan stoppað í þingflokki Sjálfstæðismanna. Ég veit að stór hluti útgerðarmanna var bara nokkuð sáttur við þá leið af því að menn vonuðust líka til þess að með því væri verið að stíga skref í átt að einhverri sátt. Menn gera sér grein fyrir því að ef við ætlum að halda þessu fyrirkomulagi áfram, að ekki eigi að taka tillit til þjóðarviljans, að ekki eigi að taka tillit til þess hvert raunverulegt virði og gjald auðlindarinnar er, þá springur þessi tunna á endanum. Það er það sem ég vil að við forðum okkur frá. Sjávarútvegskerfið er í heildina dýrmætt kerfi, verðmætaskapandi, og við verðum í stórum dráttum að standa vörð um það. En það verður ekki staðinn vörður um þá sérhagsmunagæslu sem nú ríkir og er viðhaldið undir forystu ríkisstjórnarinnar.