151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Það kom ekki fram í ræðunni það sem mest hefur verið talað um hér í dag. En mig langar samt sem áður að spyrja þingmanninn um það sem hefur komið fram í fyrri ræðum. Þegar minnst er á auðlindaákvæðið í stjórnarskránni er fókusinn yfirleitt alltaf á sjávarútveginn. Mér kom í hug þingsályktun sem var samþykkt á þinginu 2019, 149. þingi, og umhverfisráðherra hefur verið með í sínum höndum — og átti reyndar að vera búinn að skila frumvarpi eftir þá þingsályktun — en hún fjallar um skilgreiningu auðlinda þar sem Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreini hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands séu.

Mig langar bara til að spyrja þingmanninn út í það af því að umræðan fer alltaf í það, sem er auðvitað rétt, að ræða um auðlindaákvæðið og fókusera síðan alltaf á sjávarútveginn, hvort hann sé ekki sammála því að þessari vinnu verði lokið svo að við getum farið að tala um auðlindir Íslands eftir flokkum og hvaða auðlindir geti borið gjöld svo að umræðan fái einhverja aðra dýpt en í djúpum sjávar.