151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir efnislegar pælingar, góðar pælingar, vangaveltur um forsetakaflann. Það er hægt að taka undir ýmsar vangaveltur sem komu fram hjá hv. þingmanni. Ég tók þá afstöðu, og hef ekki breytt henni, að það sé hægt að vinna nákvæmlega með þessi ákvæði sem hæstv. forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna leggur fram en dreg ekki dul á að það eru ákveðin atriði og þættir í frumvarpinu sem þarf að skoða betur.

Ég vil nefna til að mynda ábendingu hv. þingmanns varðandi starfsstjórn og óvissuna varðandi breytinguna sem er lögð fram hér um það atriði að ráðherrar í starfsstjórn geti eingöngu breytt — ég man ekki nákvæmlega orðalagið — þegar nauðsynlegt er og það er of mikið svigrúm, reyndar í anda þess sem mér finnst auðlindaákvæðið vera. Mér finnst það vera mjög óskýrt, ekki nægilega skýrt. Þess vegna eigum við að tala mun skýrar og þess vegna styð ég að verið sé að fara í það að skerpa á þessum athugunum sem hv. þingmaður kom með.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið hann rétt, af því að hann talaði um að hann myndi koma með athugasemdir sínar við 2. umr., að það sé engu að síður hægt að vinna með þessar tillögur forsætisráðherra þannig að hann geri ráð fyrir því frekar en ekki að við náum inn í 2. umr. efnislegri umræðu um öll fjögur atriðin; um íslenskuna, umhverfisákvæði, forsetakaflann eða II. kafla stjórnarskrár og líka auðlindaákvæði.