151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var í raun og veru ágæt spurning hjá hv. þingmanni varðandi ákæruvald gegn ráðherrum. Um tillögu frumvarpsins vildi ég segja að mér finnst í sjálfu sér jákvætt að það sé opnað á breytingar með breytingartillögu í stjórnarskrá. Mér finnst í raun og veru jákvætt að við tökum þetta til umfjöllunar og reynum að koma okkur eitthvað áleiðis í þessu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi verið í raun og veru vandamál að ákæruvaldið lægi hjá þinginu. Ég held að það í sjálfu sér geri það að verkum að það verði alltaf mjög pólitískt hvort farið er í ákærumeðferð á grundvelli ráðherraábyrgðarlaga og auðvitað hefur maður ákveðnar vonir um að það verði þá önnur sjónarmið sem gildi ef ríkissaksóknari hefur frumkvæðisréttinn í þessu. Að því leyti tel ég að það sé jákvætt þetta sem kemur fram í 7. gr. frumvarpsins, að það sé opnað á breytingar að þessu leyti, þannig að við getum tekið það til meðferðar. Spurningin er hins vegar sú hvort við þurfum ekki að skýra fleiri þætti og það er þá kannski verkefni sem bíður okkar hvað ráðherraábyrgðarlögin varðar, hvort við teljum þörf á að skilgreina betur hvenær getur reynt á ráðherraábyrgð í þessu sambandi. En almennt er ég þeirrar skoðunar að þegar um er að ræða brot ráðherra í starfi (Forseti hringir.) geti annars vegar verið um að ræða refsiábyrgð, sem fer þá bara eftir almennum reglum (Forseti hringir.) sakamálaréttarfarsins, og hins vegar pólitíska ábyrgð. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ákveðin hætta ef við förum að blanda þessu tvennu saman.