151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er ekki langt síðan að tillaga til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda var samþykkt hér í þinginu og mig langar svolítið að fjalla um það mál inn í þessa umræðu í dag því að auðlindaákvæðið hefur tekið töluverðan tíma í umræðunni. Með þessari tillögu var ætlunin að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreindi hvað flokkaðist til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands væru. Við höfum enn ekki séð þetta frumvarp, en mér skilst þetta að hafi verið samþykkt í þinginu 19. júní 2019. Að mínu viti er það mikilvægur grundvöllur til að fara í þessa umræðu hér um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Ef við ræðum fyrst almennt um náttúruauðlindir eru fjölmargar náttúruauðlindir sem gegna ýmist veigamiklu hlutverki í framleiðslu eða hafa mikil áhrif á vellíðan fólks. Þær eru ekki háðar eignarrétti. Þær eru því ekki markaðsvörur og markaðsöfl geta ekki stjórnað nýtingu þeirra. Það er ágætt að hafa það í huga áður en áfram er haldið því að slíkar náttúruauðlindir eiga á hættu að vera ofnýttar, stundum svo verulega að þeim er eytt með öllu. Aðrar auðlindir lúta stjórnun af einhverju tagi.

Ef við fjöllum um hugtakið auðlind er það mjög víðfemt og nær til margra þátta samfélagsins. Talið er að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft, geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar. Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem eru beinlínis taldar þjóðareign. Má segja að náttúruauðlindir geti verið beinn þáttur í neyslu, t.d. útivistarsvæði og/eða veiðisvæði fyrir villt dýr, ef við tökum einhver dæmi. Þær auðlindir sem ekki teljast vera náttúruauðlindir eðli málsins samkvæmt eru t.d. mannauður, þekkingarkerfi, ýmsir gagnagrunnar og önnur hliðstæð verkefni sem menn hafa skapað. Hægt er að sjá skilgreiningu á náttúruauðlindum í skýrslu auðlindanefndar sem kom út árið 2000 og margir hér hafa kynnt sér. Við Íslendingar eigum einnig hlutdeild í auðlindum mannkyns alls, ef við förum út fyrir landsteinana, svo sem í auðlindum úthafsins, sólarljósinu og andrúmsloftinu. Því eigum við hlutdeild í sem viðtakendur og oft er forsjá slíkra auðlinda skilgreind á grundvelli alþjóðasamninga þar sem réttindi og skyldur einstakra ríkja eru skilgreind. Því falla þessar auðlindir undir þjóðarforsjá. Með nokkurri einföldun má segja að auðlindahugtakið nái til hvers konar gæða sem eru þó takmörkuð. Vegna eignarhalds á auðlindum hafa að jafnaði komið upp deilur um eignarhaldið. Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hér þar sem mér finnst enn þá vanta upp á hvernig við skilgreinum auðlindir. Á að ræða eignarhald og nýtingu á einni auðlind umfram aðra?

Í þingsályktuninni, sem hér var samþykkt og ég minntist á í upphafi, segir, með leyfi forseta:

„Af þessu má ráða að eignarréttur náttúruauðlinda hér á landi sé í meginatriðum tvenns konar að íslenskum rétti:

1. Séreignarréttur einstaklinga eða lögaðila sem nefndur hefur verið einkaeignarréttur og fara þeir sem njóta hans með rétt til hvers konar umráða og ráðstöfunar auðlindanna svo fremi að þeim rétti séu ekki settar skorður í lögum eða vegna réttinda annarra.

2. Eignarréttur ríkisins sem því hefur verið fenginn með einstökum fyrirmælum í lögum er sérstakt form á eignarráðum. Það sem skilur að framangreindan rétt ríkisins og einkaeignarrétt sem ríkið getur verið aðili að eins og hver annar lögaðili, er að ríkinu hefur verið falinn hinn sérstaki eignarréttur í skjóli þess að engir einstaklingar eða lögaðilar geti sannað eignarrétt sinn að þeim náttúruauðlindum sem um er að ræða.“

Þetta er býsna flókin umræða en gengið hefur á fjölmargar náttúruauðlindir undanfarna áratugi um heim allan. Því hafa þjóðir heims þróað leiðir til að nýta náttúruauðlindir með hagkvæmum hætti og verið nýttar þannig að það gagnist öllum. Við getum nefnt vatn í því sambandi. Þannig hefur komið í ljós að margar náttúruauðlindir sem áður virtust ótakmarkaðar eru það ekki og eru orðnar að takmörkuðum auðlindum. Þegar slíkt á sér stað kemur upp hætta á að ótakmarkaður aðgangur leiði til ofnýtingar og sóunar. Hægt er að bregðast við þessum vandamálum með því að takmarka aðgang að auðlindunum með skilgreindum eignarrétti eða þá að setja reglur er varða nýtingu þeirra. Það er það sem þarf að ræða en þó ekki þannig að það sé aðeins ein atvinnugrein sett undir. Það þarf að ræða gjaldtöku náttúruauðlinda hér á landi í víðara samhengi. Við hér, löggjafinn, getum ákveðið að láta þá sem nýta auðlind greiða með einum eða öðrum hætti gjald til samfélagsins fyrir afnot hennar, hvort sem um er að ræða gjaldtöku í formi skatta eða þjónustugjalda, en slík gjaldtaka þarf að vera almenn. Við framkvæmd hennar skal gæta málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis. Ágætt dæmi um gjaldtöku hér á landi af auðlind var kísilgúrverksmiðja við Mývatn. Fyrirtækið var þá látið greiða leigugjald fyrir afnot af auðlindinni í almenningi Mývatns, svo ég nefni dæmi um annað auðlindagjald en það sem snýr að sjávarútvegi.

Ég er með þessari ræðu að segja að auðlindirnar eru fleiri og mér finnst skorta á þá umræðu hér seinni partinn í dag. En það er öllum ljóst að hv. þingmenn og annað fólk hefur margt gott til málanna að leggja og hugsanlega þurfum við að halda umræðunni áfram.