151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:14]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki að klára allt sem ég ætlaði að segja í fyrri ræðu minni og m.a. ekki um auðlindaákvæðið sem allt þetta snýst meira og minna um. Hér hefur einhvern veginn tekist að ná því í umræðunni og almenningi talin í raun trú um að við þurfum að fá auðlindaákvæði í stjórnarskrá til að við getum náð viðunandi arði beint í ríkissjóð. Það er mikill misskilningur, hæstv. forseti, að við þurfum auðlindaákvæði til þess. Við stjórnum því með lögum og það er á grundvelli fullveldisréttar hvaða gjald menn þurfa að greiða fyrir að nýta auðlind, hvort sem það er sjávarauðlindin eða einhver önnur. Og við höfum gert það. Það er þannig í dag að þeir sem hafa rétt til fiskveiða þurfa að greiða í veiðigjald þriðjung af hagnaði af veiðum. Svo heyrir maður í umræðunni, og sá í fréttum í gær, að forsvarsmenn sumra flokka telja að þetta sé of lítið af því að þetta sé ekki nema u.þ.b. einn tíundi af hagnaði stærstu fyrirtækjanna. En menn gleyma því auðvitað að þessi stóru fyrirtæki eru með ýmsa aðra starfsemi. Hagnaður þeirra er af öðru en fiskveiðum. Hjá sumum fyrirtækjum er hagnaður jafnvel af fiskveiðum í útlöndum, sem kemur inn í samstæðuna hingað heim og menn greiða arð af þeim hagnaði. En það er einhvern veginn búið að telja fólki trú um það og ég vil segja beinlínis blekkja fólk með það að við séum ekki að fá neinn arð beint í ríkissjóð af þessari auðlind. Það er öðru nær. Það er heill þriðjungur sem við tökum sem er mjög hátt. Aðrar atvinnugreinar þurfa alla jafna ekki að þola þetta ofan á allan annan hagnað.

Ég segi bara að við þurfum ekkert auðlindaákvæði til þess að ná einhverjum arði inn í ríkissjóð. Stóra umræðan er auðvitað sú að það er ekki alltaf mestur arður þjóðarbúsins af því að hafa skattana sem hæsta. Þessir peningar nýtast jafnvel betur annars staðar sem tekjur fyrir ríkissjóð.

Menn hafa líka haldið því fram að þetta sé nauðsynlegt ákvæði þannig að afnot verði tímabundin. Við getum auðvitað alveg haft þau tímabundin. Við getum ákveðið það að eftir ákveðinn árafjölda renni út t.d. heimild til veiða, við getum sagt eftir 25 ár, þá er aflahlutdeildin sem viðkomandi fyrirtæki hafa bara útrunnin. Svo getum við deilt um það hvort það sé skynsamlegt og hvort það sé best fyrir þjóðarbúið. Ég held að vísu ekki og tel að fyrirsjáanleikinn sé auðvitað langmikilvægastur í þessu. Þá getur maður líka spurt hvort skilgreining um þjóðareign sé nauðsynleg. Ég hef heldur ekki skilið það vegna þess að við ákveðum á grundvelli fullveldisréttar hvernig við nýtum allar auðlindir sem hér eru. Við þurfum ekki að gera fiskinn að einhverri þjóðareign. Við skulum ekki gera vindinn eða sjóinn sem slíkan að þjóðareign af því að einhver nýtir hann. Við ákveðum bara hvernig þessar auðlindir skulu nýttar. Það er pólitík hvers dags og þannig eigum við að hafa það og um það tökumst við á, hvað sé skynsamlegast fyrir þjóðarbúið og hver sé skynsamlegasta nýtingin á öllum auðlindum í þjóðarbúið er á hverjum tíma. Það getur verið mismunandi milli tíma. En um leið og við förum að setja eitthvað svona í stjórnarskrá þá getur það raunverulega verið til óþurftar. Ég vil varast það. Ég vil ekki hafa neitt í stjórnarskrá ef ég þarf þess ekki og tala nú ekki um ef það er til trafala.