151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það leiðir mig að því að það eru jú fleiri auðlindir hér en fiskurinn í sjónum og ég hefði kannski viljað heyra aðeins ofan í hv. þingmann um aðrar auðlindir. Hann talaði hér um vind og ég minnist þess t.d. að vatnsréttindi einnar ágætrar kirkjujarðar í Fljótsdal, þó að það sé náttúrlega ríkið úr einum vasa í annan, voru afskaplega lágt metin þegar Kárahnjúkavirkjun komst á koppinn. Ég verð eiginlega að segja líka að Steinólfur heitinn bóndi í Fagradal, sá mæti blessaði drengur, var mikill áhugamaður um vindrafstöðvar en kom þeim aldrei upp og hann sótti um frádrátt frá skatti vegna tapaðra tekna af því að hann hafði ekki sett vindmyllur upp. Hann hafði sem sagt tapaðar tekjur af vindi.

Mig langaði til að þýfga hv. þingmann um aðrar auðlindir. Það er orkan í iðrum jarðar. Það eru vatnsréttindi sem eru ekki öll í eigu ríkisins og þess vegna minntist ég nú á þessa kirkjujörð fyrir austan því að þetta hefði alveg eins getað verið einstaklingur og þetta var alveg fáránlega lágt metið. Eigum við að setja einhvern ramma um þetta? Á það heima í stjórnarskrá? Land er auðlind eins og berlega hefur komið í ljós núna á síðustu misserum þegar menn kaupa hér land fyrir nokkra milljarða. Þar er auðlind. Eigum við að hneppa þetta einhvern veginn inn í stjórnarskrána líka? Mig langaði til að fá álit hv. þingmanns á þessu atriði.