151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn mega ekki misskilja mig og halda að ég vilji ekki að menn borgi auðlindagjald eða veiðigjald af því að verið er að nýta það sem ég kalla sameiginlegar auðlindir. Þegar við erum tala um takmarkaðar auðlindir, takmarkaðan auð, og það er ekki pláss fyrir alla að nýta þær og menn fá rétt til að nýta þær, þá greiða þeir fyrir. En það er líka þannig að það er bara gert í lögum hverju sinni og við metum stöðuna hverju sinni vegna þess að stundum eru menn tilbúnir að nýta auðlindir og vera frumkvöðlar, búa til eitthvað, og það eru engar forsendur fyrir því að leggja eitthvert gjald á það í byrjun. Síðan þegar menn eru komnir eitthvað áfram með það og þetta verður auðlind sem arður er af þá er eðlilegt að við förum að meta hvað sé eðlilegt gjald fyrir þá sem fá frumkvöðlaréttinn, eru einir að nýta t.d. eða fáir. Þá er það mjög eðlilegt. Ég er alls ekki andstæðingur þess að það sé auðlindagjald. Ég er bara að segja að mér finnst ekkert af þessu eiga heima í stjórnarskrá. Stjórnarskrá er bara allt annað í mínum huga. Það er skráin yfir stjórnskipan okkar. Það eru grunnlögin og skráin um réttindi okkar gagnvart stjórnvöldum. Annað á ekki heima þar í mínum huga. Við eigum að geta tekist á við þetta á hverjum tíma. Menn geta auðvitað bætt inn í mannréttindakaflann einhverju nýju, jafnvel þegar mönnum dettur í hug að náttúran geti notið mannréttinda. Það er önnur umræða sem mér líst auðvitað ekki vel á. En þetta eru svona atriði þar sem ég segi: Heyrðu, ekki blanda þessu í (Forseti hringir.) stjórnarskrá. Þá lendum við í ógöngum fyrr eða síðar.