151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir ræðu hans. Hann ræddi um sjávarútvegsmálin. Ég var í andsvari áðan við hv. þm. Birgi Ármannsson og spurði hann út í þennan auðlindakafla í stjórnarskránni sem fókuserast einhvern veginn alltaf þegar við förum að ræða þessi mál um auðlindagjöld vegna sjávarafurða. Mér fannst í ræðu hv. þingmanns, og það hefur komið fram í ræðum hans í dag, að þetta pirraði hann. Í raun og veru verð ég að taka undir það. Þegar við tölum um þessi mál og þegar flokkar koma inn, eins og hefur skeð hér, talandi um uppboðsleið eða að litið sé til annarra landa þá má minna á að íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær. Það kemur yfirleitt ekki fram í umræðunni.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann hvernig við getum fengið umræðuna um þessi mál á það plan að almenningur blaki eyrum og fari í raun og veru að trúa okkur stjórnmálamönnunum og því sem við erum að segja. Árásin er alltaf einhvern veginn þannig að sjávarútvegurinn sé það ríkur — það er bara talað um einhverjar örfáar útgerðir og að þær eigi að borga miklu meira. Sanngirnin í umræðunni er því aldrei nein. (Forseti hringir.) Hvernig getum við leitað nýrra leiða til að koma umræðunni á eitthvert betra stig hvað það varðar?