151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get sagt við hv. þingmann að ég er ekki vongóður um að við komum þessari umræðu í einhvern sanngjarnan eða eðlilegan farveg, sérstaklega ekki eftir að ég hlustaði á nýkjörinn varaformann Viðreisnar í þætti í gær um veiðigjaldið og nýtingu auðlindarinnar. Ég hugsaði bara með mér: Hvert erum við komin?

Þegar við erum að nýta auðlindir — jafnvel þótt þær séu í einkaeigu, sem við getum stjórnað líka á grundvelli fullveldisins — snýst þetta auðvitað allt um það hvaða fyrirkomulag við höfum sem nýtist okkur best, að til séu öflug sjálfbær félög og fyrirtæki. Það er hagur okkar. Hagurinn er ekki alltaf sá hvað við getum tekið mikið í ríkissjóð með skattlagningu. Trúa menn að öll þessi fjárfesting tengd sjávarútvegi hefði orðið til hefðu þessi öflugu fyrirtæki ekki orðið til? Nei, þá hefðum við bara verið í gamla sjávarútveginum, styrkjavæddum alveg inn að beini, sem væri stórkostlegur kostnaður fyrir skattgreiðendur í raun. En nú sjáum ofsjónum yfir því að einhver fyrirtæki skili arði í sjávarútvegi af því að þetta er auðlindin okkar. Ísland er okkar. Þetta er allt okkar. Ég er bara að segja: Okkur getur auðvitað greint á um hvað sé skynsamlegasta kerfið en þetta snýst allt um það hvernig við höfum umhverfi atvinnulífsins þannig að fyrirtæki verði öflug, geti skilað arði, að menn séu tilbúnir að leggja fjármuni í þetta og eflast. Þá verður til virðisauki, nýsköpun er annað orð yfir það. Það er mikilvægt. Það er hagur þjóðarinnar, (Forseti hringir.) ekki skattlagning.