151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta greinargóða svar. Mig langar til að vera aðeins bjartsýnni í væntingum um að við náum þessari umræðu á eitthvert skemmtilegra plan en hefur verið í ansi mörg ár. Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og var kominn á sjó áður en kvótakerfið var fundið upp. Þá var útgerðin meira og minna í fanginu á ríkinu. Þá var verið með alls konar æfingar til að sunka krónunni niður. Ég held því að þetta kerfi hafi sannað sig sem mjög gott kerfi. En samþjöppunin hefur aðallega orðið út af því að óánægjuumræðan hefur grasserað, sérstaklega hérna á Alþingi af flokkum sem vilja gera eitthvað allt annað en við erum að gera. Þess vegna hafa þessir litlu aðilar og meðalstóru selt sig bara burt til að losa sig frá þessu og farið að gera eitthvað annað. Þá fitnar stórútgerðin og hún hefur tækin og tólin til að lifa þetta af.

En það er eitt sem mig langar til að spyrja hv. þingmanninn út í sem ég veit að þarf að laga. Ég hef spurt sjávarútvegsráðherra líka að þessu, þ.e. 12% hámarkið, þakið sem í mínum huga er í raun og veru hriplekt. Það þak þarf að þétta svo að það leki ekki dropa. Þjóðin þarf að trúa því að það sé helt. Þessu þarf að koma í lag. Þá held ég að miklu meiri líkur séu til sátta í umræðunni um sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við í dag.