stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér í lok þessarar umræðu og ekki opna nýja umræðu en vil nota tækifærið því að nú hef ég fylgst með 1. umr. sem hefur staðið í hartnær heila tvo þingdaga, enda málið stórt og mikilvægt, og þakka fyrir hana. Mér finnst heilt yfir þessi umræða hafa verið góð. Mér finnst áhugaverð sjónarmið hafa komið fram, vissulega mismunandi, en þó líka töluverður stuðningur við ákveðnar breytingar á kaflanum um forseta og framkvæmdarvald. Einhverjir sjá ekki þörf á þeim breytingum, aðrir benda á að þær þurfi að skýra frekar, og það verður verkefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að rýna þá gagnrýni. Ég vil líka segja að mér finnst gott að heyra að það er töluvert mikill stuðningur við ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og ætla að nota tækifærið til að árétta hversu gríðarlega mikilvægt það er að gildandi stjórnarskrá verði ekki áfram þögul um það málefni. Það er rakið mjög vel í greinargerð frumvarpsins hvað nágrannaþjóðir okkar hafa verið að gera í þeim efnum og byggt á þeirra reynslu þannig að ég hvet þá þingmenn sem eiga eftir að vera að fara yfir þessi mál á næstu vikum til að kynna sér það. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta yrði til mikilla framfara fyrir laga- og réttarumhverfi umhverfis- og náttúruverndar. Ég hef engan heyrt hallmæla ákvæði um íslenska tungu og táknmál, þannig að maður getur glaðst yfir því að tungumálið og táknmálið á sér töluvert marga vini í þessum sölum. Auðlindaákvæðið er augljóslega það ákvæði sem mestur ágreiningur er um og það þarf ekki að koma á óvart. En ég ætla samt að segja að mér hefur fundist þetta góð umræða.
Af því að sá sem talaði hér á undan mér, vinur minn hv. þm. Brynjar Níelsson, sagðist ekkert sérstaklega bjartsýnn á þróun umræðunnar um fiskveiðistjórnarkerfið ákvað ég að rifja upp umræðu sem hér fór fram þegar lagðar voru til umfangsmiklar breytingar á því kerfi og ég mælti fyrir því frumvarpi í fjarveru þáverandi sjávarútvegsráðherra þingveturinn 2011–2012. Ég held að við höfum full tækifæri til að þroska þá umræðu betur, einmitt með umræðu um auðlindaákvæðið sem er auðvitað ekki bara um fisk heldur líka um önnur mál sem mikið hefur verið deilt um á Alþingi og nægir þar að nefna orkumálin. Við megum ekki gleyma því að þó að fiskveiðistjórnarkerfið sé umdeilt hafa orkumál og orkuframkvæmdir líka klofið þennan sal og þjóðina alla í herðar niður.
Ég er búin að hlusta vel og er mjög þakklát því hvað þingmenn hafa verið reiðubúnir að koma hingað upp og ræða þetta mál efnislega. Það vekur mér væntingar um að vinna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar geti skilað góðu verki inn í 2. umr. um þetta mál.