151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

erlendar lántökur ríkissjóðs.

[13:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Allt síðasta ár stóðum við í Viðreisn hér og biðluðum til ríkisstjórnarinnar um að stíga stór skref strax í þágu fyrirtækja og heimila, og nú stöndum við frammi fyrir 12% atvinnuleysi. Greiningardeild Landsbankans segir m.a., með leyfi forseta:

„… ítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda um stóraukna opinbera fjárfestingu, ekki síst í innviðum, hafa alls ekki staðist og ekki ólíklegt að stór opinber fjárfestingarbylgja kunni að koma samtímis því sem almenn atvinnuvegafjárfesting tekur við sér.“

Þetta er gamalkunnugur og spennuþrunginn kokteill sem ríkisstjórnin er í raun að bjóða upp á, að hafa ekki brugðist við strax. Við skulum ekki gleyma því að við erum 360 þúsund manna þjóð, ekki 360 milljón manna þjóð, sem hefði átt að eiga auðvelt með að bregðast við strax og stíga þessi stóru skref strax. Það hefur verið undirstrikað að það hefur ekki tekist hvað innviðauppbygginguna varðar.

Síðan er hitt sem ég vil benda á og það er að okkar tillögur og stuðningur við aðgerðir ríkisstjórnarinnar byggðust á yfirlýsingu Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar um að halli ríkissjóðs yrði fjármagnaður með innlendum lánum á lægstu vöxtum og án gengisáhættu. En nú hafa stjórnvöld algerlega kúvent og nú á að fara að taka tvisvar sinnum 300 milljarða að láni, erlendu láni, til að fjármagna hallann. Þessari stefnubreytingu fylgir mjög mikil áhætta, bæði gagnvart velferðarkerfinu og rekstrarumhverfi útflutningsatvinnuvega. Við skulum ekki heldur gleyma því að á síðasta ári jukust skuldir ríkissjóðs um 45 milljarða vegna gengisbreytinga. Það er því veruleg áhætta sem ríkissjóður og peningamálastefnan er að taka með því að fara í þessa kúvendingu og yfir í erlenda lántöku. Við erum í raun að leggja velferð okkar að veði.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé meðvituð um þá áhættu sem fylgir (Forseti hringir.) erlendum lántökum og hvaða forsendur séu til staðar fyrir því að kúvenda svona rækilega stefnu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og ekki síst með það í huga hvaða áhrif þetta getur haft á heimilin og fyrirtækin í landinu.