151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

erlendar lántökur ríkissjóðs.

[13:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka tvö atriði úr fyrirspurn hv. þingmanns og gera þau að umtalsefni í svari mínu. Í fyrsta lagi opinber fjárfesting sem raunar hafði aukist fyrir Covid um 45% og hefur verið aukin enn af hálfu ríkisins. Þá er ég að tala um fjárfestingar ríkisins. Ég er ekki bara að tala um hinar hefðbundnu fjárfestingar í áþreifanlegum innviðum, ég er líka að tala um fjárfestingar í rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, loftslagsmálum, orkuskiptum — hluti sem eru ekki alltaf kallaðir fjárfesting samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum hagfræðinnar en eru í raun og sann fjárfesting og sú fjárfesting sem mér hefur fundist þingið vera hvað mest samstiga í, af því að það skiptir máli að fjölga stoðum undir efnahagslíf framtíðar og það skiptir máli að við fjárfestum nákvæmlega í þeim stoðum. Þessi stefna er þegar farin að skila árangri. Við sjáum framlög til rannsókna og þróunar aukast. Við sjáum einkafjárfestingu aukast um leið í nýsköpun. Við sjáum ný nýsköpunarfyrirtæki og eldri nýsköpunarfyrirtæki vera stíga fram og vaxa. Þetta er gríðarlega jákvætt efnahagslegt merki. Hvað varðar fjárfestingar sveitarfélaga þá skiptir máli að þær taki við sér líka með sama hætti og við sjáum líka að afkoma þeirra lítur betur út en áður hafði verið talið.

Hvað varðar fjármögnun ríkissjóðs þá er hér ekkert um neina kúvendingu að ræða. Við vorum að gefa út skuldabréf upp á 750 milljónir evra sem bera 0% vexti. Það eru gríðarlega góð kjör á fjármögnun ríkisins og það skiptir einmitt máli að við fjármögnum ríkissjóð með blönduðum hætti hér innan lands og erlendis og að við horfum sömuleiðis til grænnar og sjálfbærrar fjármögnunar til lengri tíma. Þetta er skynsamlegasta leiðin til að fjármagna ríkissjóð, alveg eins og það er skynsamlegasta leiðin að fjárfestingar okkar séu með þeim fjölbreytta hætti sem raun ber vitni.