151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

erlendar lántökur ríkissjóðs.

[13:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður lýsir því yfir að hún sé mjög hissa. Ég er hins vegar ekki hissa á því að hv. þingmaður komi hér upp og tali niður krónuna því að það er auðvitað hluti af stefnu stjórnmálaflokks hennar. Mér fannst þessi málflutningur fyrst og fremst bera vitni um málflutning í stjórnmálum fremur en raunverulegt mat á áhættu. Hér erum við einmitt að horfa til þess að tryggja fjölbreyttari fjármögnun ríkissjóðs, við erum að nálgast það með hag almennings að leiðarljósi, við erum að nálgast það með það að markmiði að takmarka gengisáhættu, sem gert er í góðu samstarfi fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands, og einmitt að horfa til blandaðrar fjármögnunar.

Telur hv. þingmaður að kjör ríkissjóðs um þessar mundir endurspegli þessa miklu áhættu? Þetta eru gríðarlega góð kjör þegar við horfum til sögunnar og fjármögnunar ríkissjóðs á fyrri árum. Þannig að ég ætla nú að segja að mér finnst málflutningur hv. þingmanns fyrst og fremst einkennast af pólitískri skoðun, miklu heldur en raunverulegu mati á stöðunni. (ÞGK: 45 milljarðar sem skuldir jukust.)