151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

starfsemi Samherja í Namibíu.

[13:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 12. nóvember 2019 gerðist það að rannsóknarblaðamennska Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks var opinberuð um starfsemi Samherja í Namibíu. Umfjöllunin var ítarleg og hún var studd gögnum um mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti, og okkur brá. Með umfjölluninni var dregin upp dökk mynd af starfsemi Samherja, eins stærsta fyrirtækis á Íslandi, fyrirtækis sem hafði hagnast um meira en 100 milljarða á innan við tíu árum og teygt arma sína inn í fjölmarga aðra geira en fiskvinnslu á Íslandi.

Viku síðar, þann 19. nóvember, hélt hæstv. ríkisstjórn fund og setti niður aðgerðir til að efla traust á íslensku atvinnulífi. Í því plaggi kom fram að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra myndi hafa frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna ynni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndunum. Á grundvelli úttektarinnar skyldi stofnunin vinna tillögu til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum gegn spillingu, mútum og peningaþvætti. Síðan eru liðnir 454 dagar. Ég hef haft spurnir af því að samningar við stofnunina hafi dregist vegna Covid-19 og gagnasöfnun standi yfir en ekki sé búið að semja um úrvinnslu og tillögugerð um aðgerðir gegn spillingu, mútum og peningaþvætti.

Við vitum ekki hvenær eitthvað kemur frá stofnuninni en til hvaða aðgerða hefur hæstv. ráðherra gripið eða hyggst grípa til eftir opinberun Samherjaskjalanna? Að hverju er verið að vinna undir forystu hæstv. ráðherra sem ætlað er að stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum? Hvað er verið að gera til að vinna gegn spillingarhættunni (Forseti hringir.) sem fólgin er í því að útgerðarmenn fá aðgang að stórum hluta fiskveiðiauðlindarinnar og öðlast með honum völd í samfélaginu og mikla fjármuni?