151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

skattur af lífeyristekjum og arðgreiðslum.

[13:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skal gera mitt besta til að bregðast við þegar farið er svona vítt yfir völlinn. Ég ætla byrja á því að segja að ríkið tekur engan tekjuskatt af 200 kr. lífeyristekjum ellilífeyrisþega, bara engan. Hins vegar myndi viðkomandi skila útsvari til sveitarfélags. Hv. þingmaður gerir athugasemd við það að sá sem hefur haft einhverjar tilteknar mánaðartekjur yfir starfsævina skuli ekki halda þeim þegar hann gengur á lífeyrisaldur. En þannig er lífeyriskerfið okkar ekki byggt upp. Við gerum ekki ráð fyrir því almennt að fólk haldi að fullu óbreyttum launum á ellilífeyrisaldri, enda eru menn almennt sammála um að það sé óþarfi. Það breytir því ekki að það er of stór hópur hér á landi sem hefur ekki náð að nýta starfsævina til að tryggja sér viðunandi framfærslu á grundvelli eigin sparnaðar í gegnum lífeyriskerfið yfir starfsævina. Þá koma réttindi úr almannatryggingum til sögunnar til að bæta stöðuna. Það fer eftir því hvernig maður horfir síðan á samspil þessara kerfa hvort menn kalli það skerðingu eða aukin réttindi sem kemur frá almannatryggingum. Ég lít þannig á að við ættum að vera stolt af því hversu ótrúlega öflugt almannatryggingakerfi við höfum byggt upp til að styðja við fólk sem ekki hefur náð að leggja til hliðar í lífeyrissparnað það sem þarf til að framfleyta sér á efri árum. Það erum við að gera betur en flestir og við erum að gera það mun betur en langflestir. Við höfum sömuleiðis stigið risastór skref á nánast hverju ári undanfarin ár þannig að t.d. frá árinu 2015 höfum við aukið ráðstöfunartekjur þeirra sem þiggja bætur frá almannatryggingum að meðaltali um u.þ.b. 25%. Ég er að tala um kaupmátt ráðstöfunartekna, (Forseti hringir.) 25% aukning frá 2015. Þetta eru auðvitað ótrúlegar framfarir á ekki lengri tíma. (Forseti hringir.) Ég skal síðan koma inn á samspil við önnur skattkerfi í síðara andsvari.