151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

fyrirkomulag heilsugæslunnar.

[13:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á því hversu vel hefur gengið í uppbyggingu heilsugæslunnar. Það hefur verið í algjörum forgangi í minni tíð í heilbrigðisráðuneytinu að styrkja heilsugæsluna á öllu landinu. Til að halda því til haga hefur fjármögnun aukist sem nemur 25% á tímabilinu, á verðlagi ársins 2021, fyrir heilsugæsluna alla. Það er rétt, sem kemur fram í máli þingmannsins, að þetta fjármögnunarlíkan hefur nú fengið nokkra reynslu á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur gefist mjög vel og við erum mjög ánægð með hvernig það reynist. Um leið þurfum við að vega það og meta frá ári til árs, þ.e. til að mynda hversu þungt tilteknar breytur vega, ég nefni t.d. félagslega þætti og fleiri þætti.

Núna erum við í raun og veru að færa þetta kerfi yfir á landsbyggðina með þeim spurningarmerkjum sem því fylgja. Það eru auðvitað ýmsir aðrir þættir sem koma til á landsbyggðinni eins og fjarlægð frá heilbrigðisþjónustu, mönnunarmál sem eru öðruvísi áskoranir á ýmsum landsvæðum o.s.frv. Þetta er allt í samræmi við heilbrigðisstefnu sem þingið hefur samþykkt og snýst um að við séum með samræmd fjármögnunarkerfi, óháð því hver rekur viðkomandi heilbrigðisþjónustu.

Mín persónulega skoðun er sú að á meðan við erum í uppbyggingarfasa fyrir heilsugæsluna, á meðan við erum að auka hlutverk hennar, þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar að því er varðar aðra rekstraraðila. Við þurfum að meta þörfina í hvert skipti. Við þurfum líka að meta þá áhættu sem felst í því að vera með fleiri en eitt kerfi í gangi þegar mönnunaráskoranirnar eru eins miklar og raun ber vitni.