151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum hér enn og aftur til þess að ræða stöðuna í aðgerðum stjórnvalda gegn Covid-19 faraldrinum og er mér bæði ljúft og skylt að eiga samtal við Alþingi með reglubundnum hætti um þau mál. Að undanförnu hefur Covid-19 faraldurinn verið í mikilli rénun innan lands og þar hefur Ísland sérstöðu meðal Evrópuþjóða. Þann 8. febrúar síðastliðinn tók gildi reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar sem gildir til og með 3. mars næstkomandi. Það er það sem að jafnaði er kallað aðgerðir innan lands. Þá tóku gildi varfærnar tilslakanir. Helstu breytingar sem þá tóku gildi voru að skemmtistöðum, krám og spilasölum var heimilt að opna að nýju að uppfylltum tilteknum skilyrðum, fjöldatakmörk gesta í sviðslistum voru aukin úr 100 í 150 manns og sama hámark var sett á athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga sem og verslanir og söfn.

Eftir sem áður skiptir mestu máli að við höldum áfram að beita sóttkví, einangrun og smitrakningu gagnvart þeim sem hafa verið útsettir fyrir smiti eða eru smitaðir. Staða faraldursins innan lands gefur tilefni til að huga að frekari tilslökunum. Því fylgir þó sú áhætta að ef smit leka frá landamærum gæti ný bylgja faraldursins farið hratt af stað. Því er að mati sóttvarnalæknis nauðsynlegt að ráðast í tilteknar ráðstafanir á landamærum til viðbótar þeim sem nú þegar eru í gildi. Um þessar ráðstafanir var fjallað á ríkisstjórnarfundi í morgun. Aðstaða okkar nú er ólík þeim aðstæðum sem við bjuggum við síðastliðið vor að því leyti að nú hafa komið fram ný og meira smitandi afbrigði veirunnar auk þess sem faraldurinn er enn í hámarki í mörgum nágrannalöndum. Þess vegna er mikilvægt að líta ekki einangrað á stöðuna hér innan lands heldur horfa heildstætt á samspil aðgerða á landamærum og aðgerða innan lands.

Sóttvarnalæknir hefur lagt til að allir sem til landsins koma verði krafðir um vottorð fyrir neikvæðu PCR-prófi sem ekki sé eldra en 72 klukkustunda gamalt áður en lagt er af stað til landsins. Enn fremur að einstaklingi með jákvæða niðurstöðu í fyrstu skimun á landamærum verði gert að dveljast í sóttvarnahúsi ef sýnt þykir að viðunandi einangrunar- eða sóttkvíaraðstaðan sé ekki fyrir hendi. Einnig verði þeim sem greinst hafa með þau afbrigði veirunnar sem eru meira smitandi en önnur og/eða valda alvarlegri sjúkdómi gert að dvelja í sóttvarnahúsi skilyrðislaust. Ég hef nú þegar fallist á þessar tillögur sóttvarnalæknis og reglugerð þessa efnis mun taka gildi á föstudaginn næstkomandi, þann 19. febrúar. Krafa um tvöfalda skimun á landamærum, þar sem skimað eru við komu og aftur fimm dögum síðar að undangenginni sóttkví, verður óbreytt.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra leggur hann einnig til að horfið verði frá því að veita þeim undanþágu frá sóttvarnaráðstöfunum á landamærum sem framvísa gildu vottorði um að þeir hafi verið bólusettir. Við höfum ekki séð ástæðu til þess að fallast á þá tillögu að svo stöddu og teljum hana þurfa nánari skoðunar við, enda er það svo að framvinda mála að því er varðar vottorð hefur verið með þeim hætti að sífellt fleiri Evrópuríki hafa tekið það upp að taka slík vottorð gild á landamærum.

Nú er bólusett í hverri viku og framkvæmdin hefur gengið vel. Miðað við tölur gærdagsins er bólusetning hafin hjá 8.338 einstaklingum og nú eru um 5.757 einstaklingar fullbólusettir. Fyrsta sending frá AstraZeneca kom í síðustu viku og þá voru starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila á höfuðborgarsvæðinu bólusettir. Nú er gert ráð fyrir að klára að bólusetja þennan hóp um miðjan mars. Bólusetning hjá aldurshópnum 90 ára og eldri er langt komin og þá er gert ráð fyrir að einstaklingar sem eru fæddir 1941 og fyrr verði bólusettir í byrjun mars. Í sömu viku er stefnt að því að hefja bólusetningu þeirra sem eru í forgangshópi 5 en það eru aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með beinum hætti. Samhliða verður áfram haldið að bólusetja eldri aldurshópa með bóluefni frá Pfizer og Moderna en AstraZeneca bóluefnið verður notað fyrst og fremst fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Alls verður 280.000 einstaklingum á Íslandi boðin bólusetning, þ.e. öllum þeim sem eru 16 ára og eldri. Þá má gera ráð fyrir að hægt verði að bólusetja tæplega 190.000 einstaklinga fyrir lok júní með bóluefnum Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Þetta eru þau bóluefni sem hafa fengið markaðsleyfi í Evrópu. Þar að auki má vænta bóluefna frá fleiri lyfjaframleiðendum á öðrum ársfjórðungi að því gefnu að þeim verði veitt umrætt leyfi. Hér er um að ræða efni frá Janssen og CureVac. Auk þess er framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins að leggja lokahönd á samning um kaup á bóluefni frá Novavax.

Sóttvarnalæknir vinnur nú að gerð bólusetningardagatals á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um afhendingu bóluefna á næstu mánuðum og þar verða birtar upplýsingar um forgangshópa og hvenær einstaklingar í hverjum hópi geti vænst þess að fá boð um bólusetningu. Upplýsingar verða birtar með fyrirvara um mögulegar breytingar á áætlunum um afhendingu. Fyrirmynd að þessu er að finna á vef Sundhedsstyrelsen, sem er dönsk systurstofnun embættis landlæknis.