151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[13:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er óþolinmóður og vill að bólusetningar gangi hraðar. Bólusetningar ganga vel á Íslandi. Það sem ég myndi frekar hafa samúð með væri ef þingmaðurinn væri óþolinmóður gagnvart því fá bóluefni ekki hraðar til landsins. En það er sannarlega fljótt að gerast um leið og það er komið til landsins að sinna bæði dreifingu og bólusetningu því að það kerfi er í afskaplega góðum gangi.

Hv. þingmaður spyr um samhengi sóttvarnaráðstafana annars vegar og hins vegar bólusetninga. Eins og fram kom í fréttum í gær getum við sagt með nokkurri vissu að í lok júní verður búið að bólusetja um 190.000 einstaklinga hér á landi. Það segir sína sögu og hjálpar öllum sem eru að gera ráðstafanir, hvort sem er atvinnulífinu eða öðrum aðilum. Það sama má segja um það að ríkisstjórnin hefur nú þegar sagt varðandi aðgerðir á landamærum að frá og með 1. maí muni aðgerðir endurspegla stöðu litakóðunarkerfisins í Evrópu. Þannig að eftir því sem öllu þessu vindur fram aukum við fyrirsjáanleika í gríðarlega óvissu umhverfi, eins og hv. þingmaður veit mætavel. Þær tölur sem birtust í fjölmiðlum í gær og ég gerði grein fyrir í inngangsræðu minni, eru tölur sem byggja á þeim bóluefnum sem núna eru komin með markaðsleyfi, bæði í Evrópu og á Íslandi, og er hafin bólusetning með. Við eigum enn þá von á efnum frá fleiri aðilum þannig að það er ástæða til þess að við getum haldið áfram að stíga inn í það að Ísland geti nálgast sem mest venjulegt daglegt líf. Og það er okkar markmið, markmið okkar allra, virðulegi forseti.