151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[13:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er í raun að benda á mikilvægi atvinnulífsins og spyrja með tilliti til þess að mörg svið atvinnulífsins eru mikið til lömuð og önnur svið er algerlega lömuð, eins og t.d. stærsti partur ferðaþjónustunnar og veitingahúsageirans. Ég spyr því að ekki getum við verið að bíða eftir því að við náum einhvers konar hjarðónæmi, sem verður þá kannski einhvern tímann síðla sumars, eins og mér skilst á fréttum. Það er einhver tímapunktur þar áður sem ég er að spyrja um, þegar búið er að bólusetja áhættuhópana að mestu leyti og stjórnvöld gefa út fyrirsjáanlegar áætlanir um að þá verði slakað á þannig að atvinnulífið geti rétt úr kútnum fyrr og gert sínar áætlanir. Atvinnurekendur eru auðvitað að gera áætlanir núna fyrir sumarið og þeir gætu þá haft einhvern fyrirsjáanleika í þessu en ekki bara vonað að eitthvert bóluefni komi og þá gerist eitthvað og svo allt í einu eitthvað meira. Að stjórnvöld gefi það út hver fyrirsjáanleikinn er. Er ætlunin að bíða eftir hjarðónæmi eða er ætlunin að slaka á þegar búið er að bólusetja áhættuhópa og þá sem verst fara út úr þessari veiki?