151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[13:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Staðan er þannig að Ísland er opnasta land í Evrópu núna. Hér eru minnstar hömlur á atvinnulífi og daglegu lífi í Evrópu núna. Það er staðan. Við höfum lagt megináherslu á að aldrei sé gengið lengra í því að setja hömlur eða íþyngjandi aðgerðir á nokkurn en nauðsynlegt er vegna sóttvarna. Því munum við halda áfram og það getum við gert vegna þess að við rekjum hvert einasta smit og vegna þess að við beitum sóttkví og einangrun með markvissum hætti. Við eigum að fagna því að við höfum valið þessa mjög svo gagnlegu og markvissu leið til þess að tryggja að hér sé samfélagið eins virkt og öflugt og það getur verið. Og það er það. En það mun líka verða þannig að þegar þeim aðgerðum vindur fram, sem voru kynntar í dag varðandi aðgerðir á landamærum, þá munum við kynna frekari afléttingar innan lands. Sóttvarnalæknir hefur boðað að slíkar aðgerðir muni berast mér í minnisblaði á næstu dögum. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það verður allt saman daglegu lífi og íslensku atvinnulífi til góðs, bæði það að hækka hámarksfjölda þeirra sem geta verið í sama rými og draga úr hömlum á tiltekna starfsemi eins og nokkurs er kostur. Það hefur alltaf verið okkar leiðarljós og mun verða það hér eftir sem hingað til.