151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Ég tók eftir því, og finnst það allt eðlilegt og ekkert við það að athuga, að hv. þingmaður er óþolinmóð, ég held að þjóðin sé það gjarnan. En fyrst og fremst er þjóðin mjög þolgóð og hefur mikið úthald í þeirri stöðu sem uppi er og hefur verið í hartnær heilt ár, því að 28. febrúar er heilt ár síðan fyrsta smitið greindist. Það hefur reynt mjög á samheldni og þolinmæði í samfélaginu og ég fagna því sérstaklega hversu einhuga stjórnvöld hafa verið í þessum aðgerðum. Það gilti einnig um þær aðgerðir sem kynntar voru í ríkisstjórn í morgun að því er varðar þá kröfu um að farþegar komi með neikvætt PCR-próf frá brottfararstað til viðbótar við þá tvöföldu skimun sem við höfum þegar viðhaft. Hvert er markmiðið með því? Markmiðið með því er að við getum losað eins mikið og hægt er innan lands þrátt fyrir að staða faraldursins sé ískyggileg víða í löndunum í kring. Ég held að það sé eftir nokkru að slægjast að vilja það, að við getum haldið áfram að losa um aðgerðir hér innan lands.

Svo spyr hv. þingmaður um hvort við getum aukið keypt magn. Ég segi já. Við erum með það að markmiði að auka magnið sem við kaupum eins og við getum, eins og nokkurs er kostur, og gerum það, rétt eins og vísað er í að því er varðar Dani og viðbótarskammta Pfizer. Við höfum fengið slíka skammta og það er á grundvelli þeirra sem við urðum að gera grein fyrir öflugri áætlun en við höfum getað talað um áður.