151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt að halda því til haga að smitin á heimsvísu eru á niðurleið, þau eru í langflestum löndum á niðurleið. Það hefur ruglað svolítið umræðuna að láta í veðri vaka að það sé ófremdarástand í löndunum í kringum okkur, en smitin eru a.m.k. á niðurleið og það er full ástæða til að létta enn frekar á takmörkunum hér sem verið hafa í gildi, og þótt fyrr hefði verið. En ég fagna því að áfram verði reynt að semja fram hjá Evrópusambandinu um kaup á fleiri bóluefnum eins og önnur lönd í Evrópu hafa greinilega verið að gera.

Mig langar hins vegar spyrja um það sem fréttir hafa verið um, eða ég hef fengið upplýsingar um, að Íslendingar og aðrir þeir sem koma inn til landsins og eru bólusettir með bóluefni öðru en Pfizer-bóluefni, til að mynda með Moderna-bóluefninu, að það hefur ekki verið tekið gilt þannig að fólk sleppi við skimun og sóttkví. Mér finnst það í hæsta máta furðulegt að á íslenskum landamærum (Forseti hringir.) geti Íslendingar ekki komið bólusettir, og það fyrir löngu síðan, og sloppið þá við skimun og sóttkví. Ég vildi gjarnan fá að vita hverju það sætir (Forseti hringir.) með vísan til íslenskra laga og reglna í þeim efnum.