151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslugjöfina og framsöguna hér áðan. Ég vil í raun fagna því tækifæri sem þingið hefur haft með reglubundnum hætti, og mun væntanlega hafa áfram, til að eiga þetta samtal við ráðherra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við þingmenn nýtum okkur þann rétt og ræðum á jafnræðisgrundvelli við ráðherra og fáum svör. Það eykur mjög á samstöðuna í samfélaginu að allir fái tækifæri til að eiga þetta samtal, og er óhætt að segja hæstv. ráðherra til hróss að þetta hefur gefist vel og að mínu mati hefur ráðherra leyst þetta vel af hendi.

Það hefur nokkuð verið rætt í þessari umræðu um ákveðna óþreyju og hæstv. ráðherra kom inn á það hér áðan í andsvari við annan hv. þingmann. Það sem mig langaði kannski að spyrja um hvað varðar þá óþreyju er hvort ráðuneytið eða starfsmenn ráðuneytisins fái einhverjar upplýsingar frá bóluefnaframleiðendum um framleiðsluhraða eða væntan framleiðsluhraða, þ.e. hvort slíkt sé hluti af þeirri upplýsingagjöf sem komi frá framleiðendum því að slíkt myndi væntanlega hjálpa ráðuneytinu til að gera áætlanir fram í tímann og á sama hátt að meta það með hvaða hætti á að reka eftir því að skammtar berist til landsins.