151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í fréttum og líka í yfirlýsingu ráðuneytisins í gær þá er það ekki síst vegna þess að framleiðslugeta tiltekinna fyrirtækja hefur aukist sem við erum að sjá meira bóluefni. Við vitum að Pfizer dró úr framleiðslu sinni á fyrsta ársfjórðungi til að geta aukið hana á öðrum. Ég er ekki innanbúðarmaður í neinu lyfjaframleiðslufyrirtæki þannig að ég skil ekki nákvæmlega hvernig það gerist en það er þannig. Sama er í raun og veru að gerast með AstraZeneca. Ég vænti þess að við fáum meira efni þaðan og að það sé á grundvelli þess að framleiðslugeta aukist. Það sem maður heyrir líka er að þessi fyrirtæki séu að leita leiða til að framleiða víðar og þá væntanlega með einhvers konar samningum við aðra aðila. Þetta er það sem við höfum í höndunum. Ráðuneytið sem slíkt fær ekki formlegar upplýsingar um framleiðsluhraða. Það er ekki þannig. Snertiflötur okkar er í raun og veru fyrst og fremst magnið og síðan kemur afhendingaráætlunin í samræmi við þennan heildarpott Evrópu eftir tilteknum hlutfallsreikningum.