151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Til viðbótar við það sem er á síðunni bóluefni.is er til að mynda bóluefni frá Novavax sem við getum fengið hlutdeild í á sömu forsendum og hafa gilt um aðra samninga Evrópusamstarfsins. Varðandi Sputnik V þá er Lyfjastofnun að skoða það bóluefni í því ljósi að mögulegt væri að veita það sem kallað er tímabundið neyðarleyfi. Ein af forsendunum fyrir því að slíkt leyfi sé veitt er að bóluefni sé til reiðu og aðgengilegt, til að unnt sé að gera slíkan samning. Það er full ástæða til að skoða þetta áfram og að heilbrigðisráðuneytið geri það, Lyfjastofnun og til þess bærir aðilar, annars vegar á vettvangi Evrópusamstarfs, þar sem verið er að skoða þessa þætti, en hins vegar á þeim grunni sem ég nefni hér og þá væntanlega með aðkomu utanríkisráðuneytisins sem myndi þá aðstoða við slík samskipti.

Í grunninn er það þannig að Evrópska lyfjastofnunin, sem íslenska Lyfjastofnunin er aðili að, veitir markaðsleyfi fyrir bóluefnum. Það er meginreglan og í því felst viðurkenning á bæði virkni og öryggi efnisins og líka því að framleiðsluhættirnir séu samkvæmt stöðlum o.s.frv., en hinn kosturinn er þetta tímabundna leyfi. Þessir tveir kostir eru alltaf í stöðunni og eru þar með eitt af því sem er til skoðunar.