151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:21]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Samtökin Menntakerfið okkar sem samanstanda af nokkrum nemendum við Víðistaðakóla skiluðu nýverið umsögn um tillögur menntamálaráðherra að menntastefnu hingað til Alþingis og lögðu til að menntakerfið yrði nútímavætt og lagað að þörfum nemenda. Inntak umsagnarinnar til Alþingis er í raun: Þið vitið ekki neitt hvað er í gangi. Krakkarnir gagnrýna að þeir fái ekki fræðslu um mikilvæg málefni í heiminum eins og til að mynda geðsjúkdóma.

Forseti. Við ræðum hér horfurnar fram undan og við vitum að andleg heilsa hefur orðið undir í heimsfaraldrinum og að sóttvarnaaðgerðir hafa komið einna harðast niður á ungu fólki í námi. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að grípa þá hópa sem hafa veikst andlega í faraldrinum og eru í námi og ætlar ráðherra að beita sér fyrir því á einhvern hátt að geðrækt verði hluti af aðalnámskrá eins og krakkarnir í Víðistaðaskóla hafa kallað eftir?