151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa skýrslu og ekki bara fyrir skýrsluna og fyrir að fara yfir stöðuna með okkur hér í dag heldur fyrir þetta reglubundna samtal sem hefur verið mjög mikilvægur liður í þessu öllu saman. Það er ánægjulegt að faraldurinn er í rénun og við erum í góðri stöðu. Ekki er hægt að fullyrða neitt annað en að vel hafi verið haldið á málum. Bæði í umræðunni í dag og allan tímann, það er alveg ótrúlegt að hugsa til þess að heilt ár sé liðið, er óþreyja og óþolinmæði við óvissuaðstæður auðvitað skiljanleg.

Það sem ég ætlaði að koma inn á í fyrri spurningu er einmitt það að frá því að hæstv. ráðherra var með okkur síðast var væntingaráin reist upp úr öllu í tengslum við mögulega rannsókn sem svo varð ekki af. Þá stendur einhvern veginn eftir að þolinmæði við þessar kringumstæður verður dyggð, bara dyggðin. Það hillir í að við náum árangri og nú er byrjað að bólusetja og bólusett í viku hverri eins og hæstv. ráðherra fór yfir og það verða 190.000 manns, ef áætlanir sem vitað er um ganga eftir, í júní. Þá dregur maður þá ályktun að það eina sem geti gerst sé að bóluefnaframleiðendum vaxi ásmegin, svona fyrir utan leyfisveitingar, í framleiðslu og dreifingu á efninu og geti framleitt hraðar og meir og komið bóluefnum áfram í dreifingu í meira magni en fyrr var talið. Er rangt að álykta að a.m.k. 190.000 manns verði bólusettir í júní, og mögulega fleiri?