151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki rangt. Það er nefnilega nákvæmlega rétt að álykta sem svo. Eins og kom fram í mínu máli áðan þá er 190.000 í raun og veru varfærin áætlun. Þar byggjum við á þessum þremur framleiðendum sem hafa fengið leyfi. Fleiri framleiðendur eru í sigtinu og sumir þeirra meira að segja þannig að við höfum þegar gert við þá samninga. Ég nefni til að mynda Janssen, eða Johnson & Johnson, þar sem við höfum gert samninga um kaup á 235.000 skömmtum. Vonir standa til að það bóluefni sé þannig úr garði gert að einungis þurfi eina sprautu og það mun að líkindum fá markaðsleyfi í Evrópu í næsta mánuði. Vonir standa líka til þess að afhending á því efni geti hafist þegar á öðrum ársfjórðungi þannig að það eru fleiri jákvæð teikn á lofti, það er rétt hjá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður var að tala um þessa umræðu í þinginu og að þolinmæði væri dyggð og mjög mikið hefði reynt á hana í íslensku samfélagi. Staðan er þannig að íslenskt samfélag og almenningur á Íslandi hefur verið ótrúlega samstiga í gegnum þessar aðgerðir og í gegnum þennan faraldur. Það er örugglega mörgu að þakka en mér finnst mikilvægt að við séum öll meðvituð um það hversu mikil verðmæti eru fólgin því að við erum samstiga í meginatriðum, íslenskt samfélag. Embætti landlæknis lét gera könnun á viðhorfi almennings til bólusetninga við Covid-19 og um 90% segja það alveg öruggt, mjög öruggt eða frekar líklegt að þau láti bólusetja sig. Þá telja 92,5% bóluefnin vera annaðhvort mjög eða frekar örugg. Þetta er stemningin í íslensku samfélagi gagnvart bólusetningum(Forseti hringir.) og það er ótrúlega mikilvægt. Bólusetningar snúast ekki bara um heilsu hvers og eins heldur um heilsu samfélagsins í heild og þess vegna er viljinn til bólusetninga mjög mikilvægur.