151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í framhaldi af þessum mikilvægu hugleiðingum má líka nefna það sem við höfum lært á þessu ferli. Ég held að það sé óhætt að segja að þjóðin hafi gengið í gegnum stærra álagspróf og í lengri tíma en nokkurn óraði fyrir að heil þjóð gæti gengið í gegnum og heimurinn auðvitað allur. En eitthvað lærum við á þessu. Þá reynir einmitt á vilja og samstöðu og hvað samstaða raunverulega merkir. Þegar búið er að taka ákvarðanir hlýtur það að þýða að allir reyni að láta þær ákvarðanir ganga upp. Í því felst væntanlega samstaðan.

Í seinni spurningu ætla ég að dvelja við það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra sem snýr að þessu rökrétta samhengi hlutanna og samræmi í vonandi frekari tilslökunum frá því sem voru 8. febrúar, og hæstv. ráðherra fór vel yfir. Ég held að það sé afar skynsamlegt að herða reglurnar á landamærunum og nýta þá góðu stöðu sem við erum í innan lands. Þá verður manni hugsað til þeirra sem hafa þurft að sæta mestum takmörkunum í atvinnulífinu, sviðslistafólksins og íþróttafólksins. Íþróttirnar eru að fara inn í hæsta punkt á tímabilinu og útiíþróttirnar eru að fikra sig inn í tímabilið. Þá má spyrja um samræmi hlutanna, hvort við séum að horfa á einhverjar tilslakanir, t.d. í veitingahúsageiranum, fjölga áhorfendum í sviðslistunum og að eitthvað slíkt geti átt við íþróttirnar. (Forseti hringir.) Ég held að allir þessir aðilar hafi staðið sig alveg frábærlega og sýnt þá þolinmæði sem hefur þurft.