151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Bólusetningin er vitaskuld forsenda efnahagslegrar endurreisnar. Það hefur þess vegna allt að segja um nálgun efnahagsaðgerða hver tímalínan er í bólusetningunni. Við vitum öll að það eru engar raunverulegar væntingar um afgerandi breytingar á atvinnuleysistölum fyrr en bólusetning er orðin almenn. Við þekkjum það líka hvað hver dagur af sóttvarnaaðgerðum, enda þótt mikilvægar séu, er okkur dýrkeyptur efnahagslega.

Fréttir gærdagsins voru sannarlega jákvæðar, með þessum fyrirheitum stjórnvalda um að hafa náð bólusetningu hjá helmingi þjóðar í lok júní, en þótt allur almenningur hafi haft ástæðu til að gleðjast í gær þá er hið ósagða í stöðunni, hin hliðin á málinu, auðvitað líka sú að vonir ferðaþjónustunnar um ferðasumar með erlendum ferðamönnum eru takmarkaðar. Það hefur auðvitað líka með stöðuna á heimsvísu að gera ekki síður en hér. En í ljósi þess hversu ofsalega háð við erum ferðaþjónustunni, ólíkt öðrum þjóðum, er þetta þyngri staða fyrir okkur efnahagslega en t.d. bara hjá nágrannaríkjum okkar. Í því mikla og sögulega atvinnuleysi sem við erum að glíma við núna, þar sem stór hluti atvinnuleysisins er í ferðaþjónustunni og nú á að herða enn frekar að henni, þá spyr ég hvort unnin hafi verið einhver sviðsmyndagreining fyrir áhrif þessara sóttvarnaaðgerða hvað varðar stöðu atvinnuleysis.

Nú síðast í gær sagði framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í Kastljósinu að ferðaþjónustufyrirtækin þryti afl í haust. Ferðamálaráðherra talar um að mörg fyrirtæki séu algerlega súrefnislaus. Ég myndi því vilja heyra um þessa sviðsmyndagreiningu. Ég hef allan skilning á þessum aðgerðum og styð þær en viðurkenni að ég hefði viljað sjá tilslakanir hér innan lands samhliða, að súrefni væri komið til fyrirtækja í þröng (Forseti hringir.) samhliða þessu skrefi og að hjólunum væri komið aftur af stað í efnahagslífinu upp að því marki sem það er hægt.