151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðning við þær aðgerðir sem kynntar voru í dag. Hún er auðvitað gríðarlega mikilvæg sú samstaða sem við höfum haft að öllum jafnaði í gegnum pólitíkina um þessar aðgerðir og þá nálgun sem við erum að sýna hér á Íslandi. Við höfum borið gæfu til þess og það hefur endurspeglast í því hversu vel okkur gengur. Ég er alveg sannfærð um að þar er bæði um orsök og afleiðingu að ræða.

Hv. þingmaður nefnir að hún telji að betra hefði verið ef tilslakanir innan lands hefðu verið samhliða þeim sem við erum að fara í núna varðandi ráðstafanir á landamærum. Hafa ber í huga að við sjáum í raun og veru áhrif af breytingum á ráðstöfunum innan lands á u.þ.b. tveimur vikum og það er u.þ.b. á mánudaginn kemur af því að síðustu breytingar tóku gildi 8. febrúar. Þetta eru allt atriði sem spila saman.

Hv. þingmaður spyr um sviðsmyndagreiningar. Þar hefur forsætisráðuneytið verið með yfirsýnina að því er varðar þetta samspil milli sóttvarnaráðstafana og bólusetninga og síðan áhrifa á einstaka þætti efnahagslífsins og heilbrigðisþjónustunnar o.s.frv. Ég vænti þess að eitthvað muni sjást úr þeirri vinnu sem allra fyrst.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af ferðaþjónustunni en ég held að um leið og við vitum aðeins meira, eins og kom fram hjá Jóhannesi Skúlasyni í gær, einfaldi það allar áætlanir og líka áætlanir fyrir ferðaþjónustuna. Ég held að þrátt fyrir allt séu miklir kraftar í ferðaþjónustunni. Það er mjög burðug grein (Forseti hringir.) sem hefur yfir mikilli þekkingu og reynslu að búa og eftir því sem forsendurnar eru skýrari þeim mun líklegra er að sú grein nái viðspyrnu.