151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:37]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir það og það er raunar áhyggjuefni með forsendurnar, hversu skýrar þær séu. Ég hefði viljað sjá það gerast núna, þegar við erum ekki á upphafsreit, hvorki þessarar stöðu né aðgerða gegn veirunni, að þegar verið er að kynna svona veigamiklar ákvarðanir lægju forsendurnar fyrir, að það væri ekki eitthvað sem kæmi á næstu dögum heldur kæmi það samhliða hvers sé að vænta fyrir ferðaþjónustuna þegar þessi skref verða stigin. Ég ítreka að ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég sé þeim andsnúin en þetta skiptir máli, forsendur og fyrirsjáanleiki. Alveg eins og við höfum talað fyrir því frá upphafi að sterkum sóttvarnaaðgerðum verði að fylgja kraftmiklar efnahagsaðgerðir þá verða forsendur og fyrirsjáanleiki líka að vera fyrir hendi. Ég bendi t.d. á að langvarandi atvinnuleysi fylgja (Forseti hringir.) heilsufarslegar afleiðingar, málaflokkur sem er á borði heilbrigðisráðherra. (Forseti hringir.) Ég spyr heilbrigðisráðherra síðara sinni: Hefur reynslan af áhrifum sóttvarnaaðgerða undanfarið ár einhver áhrif á nálgun ríkisstjórnarinnar í þeim skrefum sem nú á að stíga?