151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta voru allmargar spurningar á einni mínútu. Ein þeirra lýtur að því hvort fyrirsjáanleikinn í sóttvarnaaðgerðum hefði mátt vera meiri o.s.frv. Þegar við erum að kynna þessar aðgerðir í morgun, sem lúta að aðgerðum á landamærum, þá liggja þar til grundvallar minnisblöð sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra, landamærasviðs. Það eru í raun forsendurnar sem þar liggja fyrir. Ég hef lagt áherslu á það allan tímann að öll minnisblöð sem mér berast séu partur af opinberri umræðu og þau verða það; að við eigum opin samtöl og njótum þess hversu fámennt samfélagið okkar er og séum í samtölum og samráði við þá aðila sem þurfa að sæta þessum sóttvarnaaðgerðum og við höfum verið það. Það hefur gert það að verkum að allir hafa verið reiðubúnir á hverju stigi. Það sem við erum að gera hefur aldrei komið eins og þruma úr heiðskíru lofti vegna þess að við viljum að við séum samstiga í því sem fram undan er. Við getum líka verið mjög stolt, virðulegur forseti, af þeim efnahagsaðgerðum sem Ísland hefur gripið til í kjölfarið á veirunni.