151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við höfum áður skipst á skoðunum, ég og hv. þingmaður, um það sem er sýn Flokks fólksins á sóttvarnaráðstafanir á hverjum tíma. Ég er mjög ánægð með að vera í samfélagi þar sem við skiptumst á skoðunum um þessa hluti og mér finnst það bara gott og heilbrigt. En það er líka alveg jafn gott og mikilvægt að ég sé algjörlega ósammála því sem hv. þingmaður segir hér. Ég tel að það hafi verið okkar gæfa í gegnum allan þennan faraldur að hafa farið að ráðum okkar besta fólks sem er sérfræðingar á þessu sviði, á sviði faraldursfræða; sóttvarnalæknis, landlæknis o.s.frv. Ég held að staða okkar á heimskortinu og ekki síst núna á Evrópukortinu sýni okkur það ótvírætt að við höfum tekið réttar ákvarðanir, þótt ég sé algerlega til í að velta vöngum yfir því hvað hefði gerst ef einhver hefði tekið aðrar ákvarðanir áður á einhverjum öðrum tímapunkti. En ég held að á einhverjum tíma þurfum við bara að horfast í augu við það að við erum á ansi góðum stað. Ísland hefur verið gæfusamt, bæði að því er varðar samstöðuna í samfélaginu og ákvarðanirnar sem við höfum tekið. Staðan sem við erum með í dag býður upp á það að við getum opnað samfélagið meira en við höfum gert áður, að við getum séð opnasta samfélag í Evrópu sem er býsna dýrmætt, ekki bara dýrmætt fyrir efnahaginn og fyrir atvinnulífið heldur ekki síst verðmætt fyrir okkur hvert og eitt, fjölskyldur okkar, vini og hvert annað.