151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ágætt að við séum bara ósammála í þessu. En það er annað. Við vitum að það var puttaferðalangur á ferð um Suðurlandið sem átti að vera í sóttkví. Þrír ferðamenn sem áttu að vera í sóttkví fóru út að skemmta sér og hurfu svo úr landi án þess að næðist í þá. Þetta eru aðvörunarbjöllurnar sem hringja og við eigum að taka mark á því.

En það er eitt sem ég hjó eftir í ræðu ráðherra í upphafi, hún sagði að bóluefni AstraZeneca yrði bara fyrir heilbrigðisstarfsfólk eins og staðan væri núna. Hvers vegna? Mig langar líka að spyrja: Fær fólk að velja um þau lyf sem það fær? Nú hafa komið fram aukaverkanir við eina tegund bóluefnis, meiri en hjá öðrum og ég spyr: Fær fólk að velja? Ég er t.d. með ofnæmi og ekki nóg með það, ég hef þá sérstöðu að það má ekki einu sinni sprauta mig í vinstri handlegginn, það verður að sprauta hægra megin — það er auðvitað löngu kominn tími til að sprauta hægri stefnunni. (Forseti hringir.) Það eru sumir í þannig ástandi að þeir þurfa að velja eftir því hvort þeir þola viðkomandi efni. (Forseti hringir.) Af hverju í ósköpunum má ekki velja? Verður það ekki leyft fyrir viðkvæma hópa sem gera sér grein fyrir því og eru hræddir við að fá ákveðin efni?