151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af eftirliti með sóttkví og ég get fullvissað þingmanninn um það að við erum að bæta það. Það er eitt af því sem sóttvarnalæknir leggur til í sínu minnisblaði, þ.e. að framkvæmdin með eftirliti með sóttkví verði bætt þannig að betur verði fylgst með fólki sem er í sóttkví. Hv. þingmaður spyr líka um það, og það höfum við raunar rætt áður í sambærilegri umræðu, hvort fólk geti valið um bóluefni. En það er ekki þannig. Fólk mun ekki geta valið sér bóluefni enda væri það algerlega vonlaus framkvæmd. Það verður að vera hlutverk og ákvörðun sóttvarnalæknis annars vegar og heilbrigðiskerfisins hins vegar að vega og meta hvaða bóluefni sé notað fyrir hvern og einn.